Eðlilega er mikið svekkelsi fólgið í því hjá Hamilton að sjá á eftir titlinum sem hefði komið honum í sérflokk í sögu Formúlu 1 þar sem að engum hefur tekist að vinna átta heimsmeistaratitla á ferlinum.

Barátta Verstappen og Hamilton á tímabilinu fer í sögubækurnar sem ein sú blóðheitasta, ekki bara milli ökumannanna heldur einnig milli liðanna og liðstjóra Mercedes og Red Bull Racing. Slík barátta tekur toll af mönnum og svar Hamiltons við spurningu í viðtali eftir keppni gærdagsins vöktu athygli.

,,Mér hefur liðið vel í bílnum á þessu tímabili og þá sérstaklega undanfarna mánuði. Við sjáum til hvað gerist á næsta ári," sagði Hamilton þegar hann var spurður út í næsta ár hjá sér.

Hamilton skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Mercedes fyrr á þessu ári og það verður að teljast líkegasta niðurstaðan að hann verði áfram í Formúlu 1 á næsta tímabili.

Miklar reglubreytingar munu hins vegar eiga sér stað fyrir næsta tímabil og Hamilton er 36 ára gamall hann gæti talið þetta verið komið gott og lagt keppnisstýrið á hilluna en mun líklegast taka slaginn áfram hjá Mercedes sem hafa komið vel út úr reglubreytingum síðustu ára og yfirleitt skarað fram úr.