Handboltalandslið karla sigraði í dag Austurríki og tryggði sér þar með sæti á HM sem fer fram í Póllandi og Svíþjóð á næsta ári.

Eftir leik mætti Guðmundur Guðmundsson þjálfari liðsins í viðtal hjá RÚV og byrjaði á að þakka Haukum fyrir að veita landsliðinu aðgang að íþróttahöll sinni í Ásvöllum, en í kjölfarið var hann ansi harðorður er hann ræddi húsnæðisskort landsliðsins. Hann kallaði eftir þjóðarhöll sem getur hýst stóra leiki sem þessa og sagði málið vera þjóðarskömm.

„Ég verð að segja að það er ótrúlega skrýtið fyrir okkur íþróttamenn og handboltamenn að upplifa það að það sé ekki til þjóðarhöll á Íslandi sem er hæf til þess að hýsa landsleik eins og þennan. Þetta er eitthvað sem er óskiljanlegt og mér finnst þetta vera þjóðarskömm hvernig þetta er orðið.“ sagði Guðmundur.

Þá beindi hann sjónum sínum að stjórnmálafólki sem hann sakaði um sinnuleysi. „Það er alveg sama hvaða flokkur er. Þeir fara allir undan í flæmingi, hvort sem það er Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn eða Vinstri grænir, eða hvað þeir heita nú allir,“

„Við erum eina þjóðin í Evrópu sem á ekki almennilega þjóðarhöll fyrir sína þjóðaríþrótt. Ég spyr: Hvað er að þessari þjóð?“ spurði Guðmundur sem skoraði á stjórnmálafólk að funda um málið og finna á því farsæla lausn.