Haukar mættu rúmenska liðinu CSM Foscani í Rúmeníu í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla og töpuðu með tveimur mörkum, niðurstaðan 28-26 sigur CSM Foscani. Liðin mætast aftur á Ásvöllum þann 4. desember næstkomandi.

Aron Rafn fékk að líta rauða spjaldið fyrir upphaf seinni hálfleiks fyrir að hafa skellt hurð of harkalega.

Í samtali við handbolti.is segir Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, það vera fróðlegt að sjá hvað dómarar leiksins skrifa í leikskýrsluna sem útskýringu á rauða spjaldinu.

Haukar sjá hins vegar skemmtilegu hliðarnar á þessu furðulega máli en félagið birti mynd af Aroni Rafni, markverði liðsins og settu saman skemmtilegan texta við myndina:

,,Aron Rafn, aka Hurðaskellir, er búinn að opna fyrir bókanir í desember. Kemur á æfingar hjá krökkum, labbar með þau í gegnum íþróttahús og kennir þeim að skella hurðum FAST!!!"