Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðablik, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á föstudögum á Hringbraut. Hann sat þar með Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og fóru yfir komandi tíma í Bestu deildinni en deildinni hefur verið skipt upp.

„Það er auðvitað hundleiðinlegt fyrir hlutlausa að staðan sé svona í efri hlutanum. Þetta átti að vera svo flott og svo geggjað þar sem allir leikir væru spennandi. En sjarminn er svolítið farinn eins og staðan er. Tala nú ekki um ef Víkingar verða bikarmeistarar áður en þetta hefst þá er KA komið með Evrópusæti. Þá er spennan enginn í efri hlutanum,“ sagði Hörður

Blikar eru nánast komnir með titilinn þó Ólafur vildi ekki taka svo djúpt í árina. Hann sagði að þeir sem stæðu að liðinu ættu hrós skilið, jafnvel þó stig hafi tapast. Þá sé ekkert verið að gaspra út á götuhornum. Honum lýst vel á þessa tvískiptingu.

„Það er tilhlökkun í mér. Við vorum í þeirri stöðu að vera spila stutt Íslandsmót. Framan af í apríl voru spilaðar í góðu veðri og það má alltaf deila um hvort eitthvað format sé betra en nú prófum við þetta og svo setjumst við niður þegar þessir fimm leikir eru búnir og metum það. En ég fagna að það komi fleiri leikir.

Allt þetta tal að spennan sé lítil, það er bara afleiðing af því hvernig mótið hefur spilast.“

Samkvæmt afar óformlegri könnun Íþróttavikunnar er aðeins einn leikur sem nær 2000 manns sem er viðureign Breiðabliks og FH. Benedikt Bóas, umsjónarmaður, benti á þessa staðreynd. „Við þurfum að öll lið séu með flóðljós. Að þetta taki fimm vikur að spila þessa fimm leiki þá týnist fótboltinn. Handboltinn og karfan er að byrja og enski boltinn á fullu. Fótboltinn ætti að taka sviðið og spila fimm eða sex daga vikunnar. Spila á kvöldin. Fótboltinn að taka sviðsljósið í þrjár vikur og þá þurfum við fótbolta,“ sagði Hörður.

„Mér finnst þetta búið að vera meiriháttar sumar, ekki bara útaf velgengi míns liðs heldur búið að vera mikið fjör og margir góðir leikir,“ sagði Ólafur.

„Við vorum að tala um aðstöðumál fyrr í þættinum. Upplifunin að fara á völlinn, við getum eflaust gert hana betri með því að leggja meira í aðstöðuna á völlunum. Að þetta sé ekki bara að borga sig inn til að sjá einn fótboltaleik.

Heildarupplifunin þarf að ganga hratt og örugglega fyrir sig. Að það þarf ekki að bíða í sjoppunni eða fara á klósettið og svo framvegis. Það er eflaust hægt að gera betur en það kostar framkvæmdir og við erum ekki þar ennþá.

Þeir sem eru í forsvari fyrir fótboltann þurfa að fara hugsa hver næstu skref eru. Við sitjum á eftir hvað varðar þessi mál.“

Hörður benti á að það sé margt jákvætt búið að gerast. Á Valsvelli er Fjósið, hjá Blikunum er græna herbergið og pallurinn í Hafnarfirði er yfirleitt skemmtilegur. „Ég held að það vanti þennan kúltur og þó ég elski það en þá er alltof mikið að hafa alla leiki í beinni. Það er letjandi. Ég finn það hjá sjálfum mér. Það er ástæða að Englendingar banna útsendingar klukkan 15 á laugardögum. Það er til að ýta fólki á völlinn.“