Hummer bifreiðin sem kom LeBron James í klandur undir lok menntaskólaferilsins var í dag kominn á uppboðssíðu í Bandaríkjunum.

LeBron vakti mikla athygli fyrir afrek sín innan vallar sem unglingur og var alltaf uppselt á leiki hans með St. Vincent-St. Mary skólanum. Þá voru leikirnir iðulega sýndir í sjónvarpinu.

Fyrir vikið fékk Gloria James, móðir LeBron, lán frá banka til að gefa honum Hummer-bifreið í átján ára afmælisgjöf enda ljóst að sonur hennar yrði milljónamæringur á næstu árum.

Það vakti mikla athygli í ljósi þess að á milli þess að ala upp LeBron hélst Gloria illa í vinnu og flökkuðu þau á milli félagsíbúða.

Bandarískum háskólaíþróttamönnum og fjölskyldum þeirra er óheimilt að þiggja gjafir eða að hagnast á því hvernig þeim gengur inn á vellinum.

Var LeBron því settur í leikbann en stuttu síðar var komist að niðurstöðu að hann hefði ekkert gert af sér og tók LeBron því aðeins út einn leik í bann.

LeBron var ári síðar valinn með fyrsta valrétt í nýliðavali NBA-deildarinnar og skrifaði um leið undir 90. milljón dollara samning við Nike. Hann er í dag verðmetinn á um hálfan milljarð bandaríkjadollara.