Hulda Bjarnadóttir er eini frambjóðandinn í embætti forseta Golfsambands Íslands og er því sjálfkjörin næsti forseti GSÍ á ársþingi sambandsins sem fer fram um helgina.

Haukur Örn Birgisson, fráfarandi forseti GSÍ, tilkynnti á dögunum að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri eftir átta ár í forsetastólnum.

Hulda er kunnug störfum Golfsambandsins eftir að hafa setið í stjórn GSÍ sem formaður markaðs- og kynningarnefndar undanfarin fjögur ár. Hún er meðlimur í Nesklúbbnum og hefur iðkað golfíþróttina í tuttugu ár með fjölskyldu sinni.

Hún verður fyrsta konan til að sinna embætti forseta Golfsambands Íslands og tólfti forseti GSÍ frá upphafi.

Hún hefur unnið í fjölmiðlum og var framkvæmdarstjóri Félags kvenna í atvinnulífi í fimm ár.

Meiri eftirspurn er eftir sæti í stjórn Golfsambandsins en það eru tíu einstaklingar sem bjóða sig fram að þessu sinni.

Meðal þeirra eru Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi og fyrrum atvinnukylfingur og Karen Sævarsdóttir sem vann Íslandsmeistaratitilinn átta ár í röð frá 1989-1996.

Forsetar GSÍ frá upphafi:

Haukur Örn Birgisson 2013-2021

Jón Ásgeir Eyjólfsson 2005-2013

Júlíus Rafnsson 2001-2005

Gunnar Bragason 1999-2001

Hannes Guðmundsson 1993-1998

Konráð R. Bjarnason 1980-1992

Páll Ásgeir Tryggvason 1970-1979

Sveinn Snorrason 1962-1969

Ólafur Gíslason 1956-1961

Þorvaldur Ásgeirsson 1952-1955

Helgi H. Eiríksson 1942-1951