Hulda Bjarnadóttir, stjórnarmaður hjá golfsambandi Íslands, GSÍ, greinir frá því á facebook-síðu sinni í dag að hún hafi áhuga á að taka við formennsku sambandsins en fyrr í dag tilkynnti Haukur Bragason að hann hyggðist ekki að sækjast eftir endurkjöri sem forseti Golfsambands Íslands.

„Verð að segja að fyrir fjórum árum þegar Haukur Örn nefndi við mig að koma inn í stjórn þá hefði mig ekki grunað að þetta yrði staðan í dag. Ég hef verið þakklát honum frá fyrsta degi og við höfum unnið vel saman og það er alltaf erfitt að sjá á eftir reynsluboltum hvar sem er.

Ég er honum ávallt þakklát og met framlag hans mikils enda einstakt, hér heima og erlendis. Hef verið mjög stolt af öllu því starfi sem hann og stjórnir GSÍ hafa byggt upp undanfarin ár. Þessi hreyfing byggir á sjálfboðaliðavinnu að mjög miklu leyti og er stjórnarstarf GSÍ þar engin undantekning.

Nú er ljóst að hann stígur frá borði og ég nýt þess enn að starfa fyrir hreyfinguna. Því finnst mér þetta rökrétt framhald og er tilbúin til að axla meiri ábyrgð en áður.

Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér sem forseti Golfsambandsins á næsta Golfþingi sem fram fer dagana 19.-20. nóvember," segir Hulda í facebook-færslu sinni sem lesa má í heild sinni hér að neðan.