Sir Lewis Hamilton, sjö­faldur heims­meistari í For­múlu 1 og öku­maður Mercedes segir að reglurnar í kringum Monza kapp­aksturinn í For­múlu 1 um helgina hafi virkað eins og þær hefðu átt að gera í Abu Dhabi í loka­keppni síðasta tíma­bils þegar á­kvörðun, al­gjör­lega á önd­verðu við þá sem tekin var í gær, leit dagsins ljós og olli því að Hamilton missti af sínum áttunda heims­meistara­titli.

Monza kapp­akstrinum í gær lauk fyrir aftan öryggis­bíl þar sem Daniel Ricciar­do, öku­maður McLaren hafði áður stað­næmst á brautinni nokkrum hringjum fyrir lok kapp­akstursins. Hringuðum bílum var ekki leyft að af­hringa sig líkt og í fyrra í Abu Dhabi og þá var ekki á­kveðið að senda öryggis­bílinn inn og láta keppnina enda á hefð­bundinn hátt líkt og í Abu Dhabi.

Hamilton segir at­burða­rás gær­dagsins ó­neitan­lega hafa látið sig hugsa til Abu Dhabi kapp­akstursins á síðasta tíma­bili þar sem heims­meistara­titillinn rann honum úr greipum eftir afar um­deilda á­kvörðun keppnis­stjórans Michael Masi. Hamilton og Ver­stappen komu jafnir að stigum inn í þá keppni og það virtist allt stefna í öruggan sigur Hamilton en svo klessti Nicholas Latifi, öku­maður Willi­ams bíl sinn og öryggis­bíll var kallaður út.

Hringuðum bílum fyrir aftan öryggis­bílinn hafði verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggis­bílinn þar sem að þeir voru stað­settir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Ver­stappen sem var í öðru sæti.

Keppnis­stjórn­endur á­kváðu hins vegar að breyta á­kvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir for­ystu­sauðunum að af­hringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt upp­dráttar þar sem að Ver­stappen var á mun betri dekkja­gangi. Svo fór að hann tók fram úr Hamilton og tryggði sér sigur í stiga­keppni öku­manna. Mót­mæli Mercedes voru ekki tekin gild.

At­burða­rásin var allt önnur í gær og segir Hamilton að svona eigi reglurnar að virka. „Það hefur að­eins gerst einu sinni í sögu For­múlu 1 að reglunum hefur verið beitt öðru­vísi og það skipti hafði á­hrif á úr­slit keppninnar um heims­meistara­titilinn," sagði Hamilton í við­tali í gær.

Michael Masi, keppnis­stjórinn um­deildi var látinn fara í kjöl­far á­kvörðunarinnar. Niels Wittich og Edu­ar­do Freitas tóku við stöðu Masis sem keppnis­stjórar og deila með sér völdum. Auk þeirra er Her­bie Blash aðal ráð­gjafi þeirra.