Formúlu 1 sérfræðingurinn Karun Chandhok segir það alveg klárt að eftir afar slæma byrjun McLaren á tímabilinu muni liðsmaður þess, einn hæfileikaríkasti ökumaður mótaraðarinnar fara að horfa í kringum sig.
Breski ökumaðurinn Lando Norris hefur verið hliðhollur í gegnum árin en nú virðist vera komið að tímamótum á yfirstandandi tímabili. McLaren virðist bara hafa tekið skref aftur á bak milli tímabila.
Norris er einn af bestu ökumönnum Formúlu 1, það dylst engum, og þrátt fyrir tækifæri og áhuga áður frá öðrum liðum hefur hann haldið tryggð við McLaren.
Norris endaði í 17. sæti í fyrstu keppni tímabilsins um síðustu helgi, síðastur af þeim sem kláruðu keppnina.
Chandhok, sem er Formúlu 1 sérfræðingur Sky Sports veltir því nú fyrir sér hvort Norris hafi verið sniðugur og komið fyrir ákvæði í fjögurra ára samningi sínum sem hann gerði við McLaren nýlega.
,,Ég skal segja ykkur hver er farinn að hugsa um skipti til Ferrari eða Red Bull Racing, það er hinn ungi Lando Norris," sagði Chandhok í F1 hlaðvarpi Sky Sports.
Slíkt verði þó ekki auðvelt því valinn maður er í hverju rúmi hjá þessum liðum og ljóst að hæfileikar Lando Norris eiga ekki heima í hvaða liði sem er í mótaröðinni.