Aðeins tveimur vikum eftir að Ofurdeildin í knattspyrnu leystist upp eftir hótanir forráðamanna UEFA í garð stærstu félagsliða Evrópu þurftu forráðamenn PGA-mótaraðarinnar í golfi, sterkustu mótaraðar heims, að stíga sömu skref og vara leikmenn við að taka þátt í áætlunum um nýja Ofurdeild í golfi sem voru lagðar fram af Sádi-Aröbum.

Áætlað var að mótaröðin myndi hefjast á næsta ári en ekki hefur tekist að sannfæra sterkustu kylfinga heims um ágæti hennar.

Formaður PGA hefur nú stigið fram og tilkynnt kylfingum á mótaröðinni að þeir kylfingar sem samþykkja tilboðið um að leika á þessari nýju mótaröð missi um leið keppnisréttinn á PGA-mótaröðinni og geti átt von á lífstíðarbanni frá PGA. Evrópumótaröðin, næststerk­asta mótaröð heims, tók í sama streng.

Með því yrðu möguleikar kylfinga, sem myndu samþykkja boð á nýju mótaröðina, á þátttöku í Ryder-keppninni í golfi, þar sem sterkustu kylfingar Evrópu leika gegn sterkustu kylfingum Bandaríkjanna í liðakeppni, úr sögunni.

Samkvæmt áætlunum fengju aðeins sterkustu kylfingar heims þátttökurétt á mótaröðinni og að það yrðu tólf til átján mót á hverju tímabili með mun hærra verðlaunafé en það sem þekkist á PGA-mótaröðinni og Evrópumótaröðinni.

Um fimmtíu mót eru haldin á hverju tímabili á PGA-mótaröðinni og fyrir vikið færi hin nýja mótaröð í beina samkeppni við PGA-mótaröðina.

Írinn Rory McIlroy sem hefur verið meðal fremstu kylfinga heims undanfarinn áratug greindi frá því á blaðamannafundi í síðustu viku að hugmyndin hefði fyrst verið borin undir hann fyrir sjö árum síðan en hann hefur verið mótfallinn hugmyndinni frá fyrsta degi.

„Þegar litið er til þess sem gerðist þegar hugmyndin kom fram um Ofurdeildina í fótboltanum, þá snýst þetta eingöngu um peningana. Það er í fínu lagi ef það er ástæðan fyrir því að þú heillast af golfi en ég er í þessari íþrótt til að skrifa nafn mitt í sögubækurnar og vinna risatitla.“