Anton Sveinn McKee er þessa dagana staddur í Búdapest í Ungverjalandi þar sem hann tekur þátt í International Swimming League sem haldið er í annað sinn. Keppt er samkvæmt deildarfyrirkomulagi en Anton Sveinn er hluti af kanadíska liðinu Toronto Titans á mótinu.

Anton Sveinn hefur bætt Íslands- og Norðurlandamet sín í 100 og 200 metra bringusundi á mótinu en nýtt met hans í 100 metrunum er 56,30 sekúndur og metið í 200 metra sundinu er 2.01,65 sekúndur.

Þrátt fyrir að hafa verið í metaham síðustu dagana er Anton Sveinn ánægðastur með að til staðar sé nú mót í sundi með liðafyrirkomulagi. Stefnan hafi vissulega verið að bæta tíma sína en mestu máli skipti að safna eins mörgum stigum og mögulegt er fyrir lið sitt.

„Það er frábært að það sé komin deild með liðafyrirkomulagi í sundið. Þetta er bæði skemmtileg viðbót við mótadagskrá og svo eykur þetta fjárhagslegt öryggi að bæta við þess háttar mótum. Það er mikil áhætta fólgin í því að hafa einungis tvö stórmót á hverju ári, heims- og Evrópumót og svo Ólympíuleika á fjögurra ára fresti.

Það eykur tekjumöguleika fyrir sundmenn að vera orðnir partur af liði sem keppir í mótaröð þar sem nokkur mót verða haldin á hverju ári þegar ástandið verður orðið eðlilegt á nýjan leik eftir kórónaveirufaraldurinn,“ segir Anton Sveinn sem er að taka þátt í mótaröðinni í fyrsta skiptið.

Tíu lið eru í deildinni, fjögur bandarísk, fjögur evrópsk, eitt japanskt og svo kanadíska liðið Toronto Titans. Í hverju liði eru 32 sundmenn en þarna er saman komið besta sundfólk heims. Hvert lið sendir svo tvo til þrjá sundmenn í hverja grein og þá er einnig keppt í boðsundi. Sætaröðin skilar svo stigum en ekki sá tími sem sundmaðurinn syndir á.

„Ég tók þá ákvörðun fyrir um það bil ári síðan að leggja allt kapp mitt á sundið en áður hafði ég verið í námi eða vinnu með sundiðkuninni. Ég hóf að æfa við frábærar aðstæður í Virginíu í Bandaríkjunum í æfingabúðum þar sem auk þess að geta æft eins og atvinnumaður er mikil áhersla lögð á andleg atriði sem tengjast því að vera afreksmaður í sundi,“ segir þessi metnaðarfulli sundmaður.

„Það er að skila sér að geta sinnt sundinu af fullum krafti og einbeitt sér alveg að æfingum, endurheimt milli æfinga og að fá góða hvíld á milli æfinga og keppna. Þessi mótaröð er svo hluti af því að leggja allt undir til að komast í fremstu röð. Það er líka frábært að vera partur af heild og leggja sitt af mörkum svo liði gangi vel. Tíminn minn er ekki aðalatriðið heldur stigasöfnunin fyrir liðið. Það er hins vegar óneitanlega góð tilfinning að sjá hvar ég stend þar sem ég renndi blint í sjóinn þar sem ég keppti síðast á móti þar sem ég æfði í aðdraganda þess með það í huga að ná sem bestum tíma í upphafi þessa árs.“

Anton er einnig að vinna í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana.

„Eftir að þessu móti lýkur hefst svo í raun bara undirbúningur fyrir Ólympíuleikana sem fram fara næsta sumar. Næstu mót verða einhvern tímann í mars eða apríl á næsta ári býst ég við. Ég fer bara aftur til Virginíu þar sem ég mun leggja áherslu á það í æfingum mínum að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í 100 metra bringusundi,“ segir hann um framhaldið. Anton er í dag eini Íslendingurinn sem hefur tryggt sér farseðilinn til Tókýó.

Það hefur hann gert í 200 metra bringusundi. Næst á dagskránni hjá honum er hins vegar sjöundi leggur International Swimming League.