Aðeins fjórum mánuðum eftir að Callum Hudson-Odoi sleit hásin í leik með Chelsea er hann byrjaður að æfa á ný með liðsfélögum sínum.

Hudson-Odoi skaust fram á sjónarsviðið með Chelsea á síðasta ári undir stjórn Maurizio Sarri og virtist hinn átján ára gamli Hudson-Odoi vera orðinn fyrsti kostur á kantinum þar til að hann sleit hásin í leik gegn Burnley undir lok apríl.

Kantmaðurinn hefur verið að æfa með varaliði Chelsea undanfarnar vikur en byrjaði að æfa með aðalliðinu í þessari viku með það fyrir augum að hann leiki með liðinu eftir landsleikjahlé.

Chelsea hefur verið í viðræðum við ungstirnið um nýjan samning enda aðeins eitt ár eftir af núverandi samning og stærstu lið Evrópu að fylgjast með honum.

Hudson-Odoi stendur til boða að skrifa undir fimm ára samning sem myndi gera hann að einum af launahæstu leikmönnum liðsins.