Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, fór yfir Evrópumótið í handbolta á síðasta stjórnarfundi sambandsins. Hann endaði pistil sinn á því að skoða þyrfti leiðir til að styrkja líkamlegt atgervi leikmanna og sálfræðiþáttinn. Guðmundur var að stíga um borð í flugvél til Frakklands þegar Fréttablaðið náði í skottið á honum í gær.

„Við erum með viðmið þegar kemur að því að byggja upp okkar landslið. Þá er farið í næringarþáttinn, líkamlegan styrk og svo andlega þáttinn. Þetta er í stefnunni okkar og við viljum byggja upp andlegan styrk hjá íþróttafólkinu okkar. Við erum að horfa til þess að bæta í þennan þátt og ég lít á þetta sem hlut af því að gera góðan íþróttamann enn betri,“ sagði Guðmundur sem var kallaður út í vél og þurfti að kveðja.

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, íþróttasálfræðingur og dósent og sviðsstjóri íþróttafræðisviðs HR. Fréttablaðið/Ernir

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og dósent og deildarforseti íþróttafræðideildar HR, segir að Háskólinn í Reykjavík sé í samstarfi við HSÍ þar sem líkamlegt atgervi sé mælt hjá yngri landsliðum og A-landsliði kvenna. A-landslið karla hefur ekki verið mælt í tvö ár. „Það er með því markmiði að finna hvar skórinn kreppir og ýta leikmönnum svo áfram. Það eru til mælingar eitthvað aftur í tímann þar sem hægt er að bera okkur saman við aðrar þjóðir.“

Í BA-ritgerð Sigrúnar Maríu Jörundsdóttur frá 2017 sem fjallaði um þunglyndis- og kvíðaeinkenni meðal íþróttafólks með áherslu á handboltaiðkendur kom fram að 56,4 prósent sýndu einhver einkenni kvíða og að 58,2 prósent sýndu einhver einkenni þunglyndis. Viðhorf þeirra sem stunda handbolta til sálfræðiþjónustu voru jákvæð en þó höfðu aðeins 5,7 prósent leitað sálfræðihjálpar til að ná bata eftir meiðsli. Tæplega 81 prósent leikmanna myndi nýta sér sálfræðiþjónustu ef hún væri í boði innan þeirra félagsliðs. Könnun Sigrúnar náði til 254 leikmanna úr 38 liðum.

Hafrún, sem var fyrsti höfundur að vísindagrein þar sem skoðuð var sálræn færni, andlegur styrkur og keppniskvíði allra íslenskra landsliða Íslands í handbolta, segir að hér á landi sé búið að kortleggja þessa þætti. „Fáar þjóðir hafa jafnmiklar upplýsingar um þessa þætti og við. Við höfum því sterk gögn um hvar sálrænir styrkleikar og veikleikar liggja. Það er hægt að nota þau gögn til að skipuleggja hvað skal gera. Það er ekki eftir neinu að bíða.“