Hand­knatt­leiks­sam­band Ís­lands (HSÍ) hefur nú til skoðunar at­vik sem átti sér stað á leik FH og ÍBV í úr­slita­keppni Olís­deildar karla þann 3. júní í Kapla­krika en þar sungu og hrópuðu stuðnings­menn ÍBV ókvæðisorðum að leikmönnum FH.

Róbert Geir Gísla­son, fram­kvæmda­stjóri HSÍ, segir þessa hegðun al­ger­lega „ó­þarfi og ó­líðandi“ og að at­vikið sé til skoðunar og hvort eða hvernig það sé hægt að beita ÍBV ein­hverjum sektum eða veita þeim á­minningu.

„Það kemur væntan­lega niður­staða í það mál í dag eða á morgun,“ segir Róbert Geir.

Spurður hvað það er sem kemur til greina að gera segir hann að það minnsta sé að senda þeim bréf og á­minningu og svo komi til greina að veita þeim sekt.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eitt­hvað svona kemur upp á leik á milli ÍBV og FH en í fyrra fékk ÍBV 150 þúsund króna sekt og á­minningu fyrir að vera með læti við búnings­klefa FH en leik­menn þurftu að ganga í gegnum á­horf­enda­skara á leið til búnings­her­bergja. Þá var einnig rætt að stuðnings­menn ÍBV mættu með myndir af mæðrum leik­manna FH og öskruðu og börðu á klefa­hurðina eftir leik þar sem ýmis­legt var sagt um leik­mennina.

„Það er rosa­lega erfitt fyrir mig að svara hvað þeim gengur til og for­svars­menn ÍBV ættu að gera það. En það sem átti sér stað er engan veginn á­sættan­legt,“ segir Róbert Geir.

Stuðnings­mennirnir og leik­mennirnir eru margir á barns­aldri eða allt upp í tví­tugt. Spurður hvernig því sé háttað að vísa hrein­lega fólki úr sal sem hagar sér með þessum hætti segir Róbert Geir að það sé á á­byrgð um­sjónar­manns leiks að gera það en segir að oft sé það erfitt þegar fjöl­mennt er.

Sigur­geir Árni Ægis­son, fram­kvæmda­stjóri hand­knatt­leiks­deildar FH, segist á­nægður að málið sé til skoðunar hjá HSÍ. Hann segir að lengi hafi svo­kallaður „ban­ter“ úr pöllum tíðkast en að það séu ó­líkar skoðanir á því hvar línan sé í þeim málum.

Davíð Þór Óskars­son, for­maður stjórnar hand­knatt­leiks­deildar ÍBV, kannaðist hvorki við at­vikið eða að það væri til skoðunar hjá HSÍ þegar blaða­maður leita eftir við­bragða hjá honum.