Heilbrigðisráðuneytið hefur veitt handknattleikssambandi Íslands, HSÍ, undanþágu frá reglugerð um sóttvarnir vegna fyrstu leikja íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM 2022 sem spilaðir verða í Laugardalshöll miðvikudaginn 4. nóvember og laugardaginn 7. nóvember.

Þetta staðfesti Kjartan Vídó Ólafsson, fjölmiðlafulltrúi HSÍ, í samtali við Fréttablaðið.

Í reglugerð vegna sóttvarna sem fellur úr gildi 3. nóvember nk. segir að heimilt sé að gera undanþágu vegna alþjóðlegra viðburða.Ísland leikur við Litháen á miðvikudeginum og Ísrael á laugardeginum. Auk þessara liða er Portúgal með þeim í riðlinum í undankeppninni.

Þá hefur Valur sömuleiðis fengið leyfi til þess að leika heimaleik sinn við finnska liðið HJK Helsinki í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna sem leikinn verður annað hvort 3. eða 4. nóvember.