Vegna takmarkanna á æfingum og keppni í íþróttum hefur stjórn handknattleikssambands Íslands, HSÍ, frestað mótahaldi sínu til 11. nóvember næstkomandi.

Unnið er að endurröðun leikja í deild og í bikarkeppni meistaraflokka og verður það kynnt nánar í næstu viku, stefnt er að því að hefja leik helgina 11. - 15. nóvember.

„HSÍ hvetur félögin til að fylgja öllum reglum og tilmælum þegar kemur að æfingum félaganna,  það er von okkar allra að mótin geti hafist sem fyrst," segir í tilkynningu HSÍ um ákvörðun sambandsins.

Fram undan eru svo fyrstu leikir íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM en þeir leikir eiga að fara fram í Laugardalshöll miðvikudagnn 4. nóvember annars vegar og laugardaginn 7. nóvember hins vegar.

HSÍ hefur beðið heilbrigðisráðuneytið um undanþágu frá gildandi sóttvarnarreglum til þess að spila þá leiki en ekki liggur fyrir svar við þeirra beiðni.