Dak Prescott, leikstjórnandi Dallas Cowboys, lét umdeild orð falla á blaðamannafundi í gærkvöld þegar hann hrósaði aðdáendum Dallas Cowboys sem grýttu dómarana á leið sinni af vellinum.

Dallas féll úr leik á heimavelli gegn San Fransisco 49ers í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Furðuleg ákvörðun Prescott að hlaupa þegar stutt var eftir af leiknum reyndist lokaatlaga Dallas í leiknum en Prescott var ósáttur að fá ekki aðra tilraun.

Þegar leikmenn og dómarar héldu inn til búningsklefa byrjuðu ósáttir aðdáendur Dallas að kasta hlutum í átt að dómarateymi leiksins sem hljóp inn í búningsklefa samhliða leikmönnum Dallas.

Prescott var ósáttur að stuðningsmennirnir skyldu grýta eigin leikmenn, en snerist hugur þegar hann fékk að vita að þeir hefðu verið að grýta dómarana.

„Jæja, þau eiga þá hrós skilið.“