Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United undirbýr sig nú fyrir miklar breytingar á leikmannahópi liðsins í kjölfar ráðningar á hollenska knattspyrnustjóranum Erik ten Hag sem er nú mættur til Englands til þess að undirbúa næsta tímabil hjá félaginu. Búist er við því að allt að tíu leikmenn muni yfirgefa herbúðir félagsins sem hefur átt arfaslakt tímabil.

Ten Hag er nú í London og mun vera í stúkunni á Selhurst Park þegar að Crystal Palace tekur á móti Manchester United í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina. Samskipti Ten Hag við leikmannahóp liðsins eru hins vegar engin eins og er. Það gerir hann af virðingu við Ralf Ragnick, bráðabirgðastjóra félagsins sem stýrir sínum síðasta leik hjá Manchester United um helgina.

Óvissa er um framtíð markvarðarins Dean Henderson en tækifæri hans hjá félaginu hafa verið af skornum skammti. Samkvæmt Daily Mail hafa fulltrúar markvarðarins verið í viðræðum við Newcastle United en David de Gea er hugsaður sem aðalmarkvörðurinn á Old Trafford.

Þá er Manchester United opið fyrir tilboðum í hægri-bakvörðinn Aaron Wan-Bissaka sem sló í gegn hjá Crystal Palace á sínum tíma en hefur ekki tekist að heilla eftir komu sína til Manchester.

Paul Pogba er eitt stærsta nafnið sem er orðað við brottför frá félaginu. Samningur hans rennur út í sumar og félög á borð við Juventus, Paris Saint-Germain og Real Madrid. Svipaða sögu er að segja af Edinson Cavani, Nemanja Matic, Juan Mata og Lee Grant sem renna allir út á samning í sumar og munu fara á frjálsri sölu.

Þá er alveg ljóst að Jesse Lingard muni yfirgefa herbúðir Manchester United en áhugavert verður að sjá hver næsti áfangastaður hans verður eftir flottan tíma hjá West Ham United seinnipart síðasta tímabils.

Hlustað verður á tilboð í miðverðina Phil Jones og Eric Bailly og þá gæti staða Harry Maguire hjá félaginu verið í óvissu.