Landsliðsmaðurinn fyrrverandi var mættur á tískuviku í Mílanó en hann var að ganga heim eitt kvöldið þegar vopnaður maður réðst að honum.

„Það er gott að vera mættur aftur í ræktina eftir góða daga í Mílanó. Ég er mjög glaður með það að hafa verið duglegur í ræktinni undanfarið,“ sagði Rúrik í færslu á Instagram en hann virðist nú vera staddur hér á landi.

Rúrik hafði skellt sér út á lífið í Mílanó og var á heimleið þegar atvikið átti sér stað. „Um miðja nótt í Mílanó þegar ég var að ganga heim af pöbbnum, þá vildi einstaklingur ræna af mér úrinu. Hann var vopnaður flösku sem var brotin.“

„Hann krafðist þess að fá úrið og reyndi að ráðast á mig en ég náði að sjá um það. Farið í ræktina strákar.“

Rúrik hefur verið áberandi eftir að hann hætti í fótbolta fyrir tveimur árum, hann er stórstjarna í Þýskalandi þar sem hann hefur slegið í gegn í sjónvarpi og þá hefur hann gert það gott sem sparkspekingur hjá Viaplay hér á landi.