Af­leitur sóknar­leikur varð ís­lenska karla­lands­liðnu í hand­bolta að falli er liðið tapaði í kvöld sínum fyrsta leik eftir von­brigðin sem liðið upp­lifði á HM. And­stæðingur kvöldsins var Tékk­land í undan­keppni EM, Tékkarnir voru sterkari og unnu að lokum fimm marka sigur 22-17.

Jafn­framt var þetta fyrsti leikur ís­lenska liðsins eftir starfs­lok Guð­mundar Guð­munds­sonar, fyrrum lands­liðs­þjálfara. Ágúst Jóhanns­son og Gunnar Magnús­son stýrðu ís­lenska liðinu í kvöld.

Strákarnir okkar skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins en í kjöl­farið hrökk allt í bak­lás. Tékkarnir skoruðu sex mörk í röð áður en Ís­land svaraði með þremur mörkum. Staðan því 6-5 þegar rétt tæpar á­tján mínútur höfðu liðið af leiknum.

Björg­vin Páll Gústavs­son, mark­vörður Ís­lands var ljósi punkturinn við liðið í fyrri hálf­leik en hann varði sjö skot, það sama og kollegi hans í markinu hjá Tékkum.

Á löngum hluta leiksins gekk sóknar­leikur ís­lenska liðsins erfið­lega. Tékkarnir höfðu að sama skapi svörin í sínum að­gerðum og fóru að lokum með tveggja marka for­skot inn til hálf­leiks, staðan 12-10.

Erfið­leikar ís­lenska liðsins héldu á­fram í síðari hálf­leik, þá helst í sóknar­leiknum. Á fyrstu tuttugu mínútum hálf­leiksins tókst Strákunum okkar bara að koma boltanum í netið tvisvar sinnum.

Þau mörk skoraði Bjarki Már Elís­son en hann leiddi ís­lenska liðið á­fram hvað marka­skorun varðar.

Þegar að tíu mínútur eftir lifðu leiks voru heima­menn í Tékk­landi sex mörkum yfir 19-12 og verk­efnið ærið fyrir ís­lenska lands­liðið.

Strákunum okkar tókst eitthvað að brúa bilið fyrir leikslok, með því að skora fjögur síðustu mörk leiksins, en þó ekki að fullu og þurftu þeir að lokum að sætta sig við fimm marka tap 22-17

Eftir leik kvöldsins situr ís­lenska liðið í 2.sæti síns riðils, tveimur stigum á eftir topp­liði Tékk­lands sem er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína. Liðin mætast öðru sinni á sunnu­daginn, þá í Laugar­dals­höll.