Hann reyndist dýrkeyptur, hráki Marko Lasica, landsliðsmanns Svartfjallalands í handbolta á dögunum. Lasica var á dögunum dæmdur til að greiða því sem nemur um 750 þúsund íslenskum krónum í sekt eftir að hafa hrækt á stuðningsmenn Norður-Makedóníu eftir leik Svartfjallalands og Norður-Makedóníu eftir leik liðanna á EM í handbolta.

Leiknum lauk með 24-28 sigri Svartfjallalands. Svartfellingar fögnuðu sigrinum ákaft eftir leik á meðan að stuðningsmenn Norður-Makedóníu létu í ljós reiði sína með úrslitin með því að hrópa miður fallegum orðum í átt að leikmönnum Svartfjallalands.

Marko Lasica, tók sig til, labbaði í áttina að stuðningsmönnum Norður-Makedóníu og hrækti í áttina að þeim.

Lasica er heppinn með að sleppa við leikbann fyrir athæfið en hann var sektaður um fimm þúsund evrur fyrir hrákann af aganefnd EHF. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.