Leah Williamson, fyrirliði enska kvennalandsliðsins, sem varð Evrópumeistari á dögunum, var til viðtals á BBC nýlega. Þar ræddi hún til að mynda mikilvægi þess að ungar stelpur séu með fyrirmyndir.

„Ég sá kraftmikið tíst á meðan EM stóð. Þar var stelpa í prinsessukjól fyrir framan sjónvarpið að horfa á leik. Punkturinn er að hún þarf ekki að vilja verða knattspyrnukona. Hún þarf bara að sjá einhvern sem er eins og hún, kona, og er að ná árangri á stærsta sviðinu. Það getur gert ótrúlega mikið fyrir hana, andlega, hvernig hún sér sjálfa sig og hvernig framþróun hennar í lífinu verður. Það getur gefið henni sjálfstraust til að fara í íþróttalið eða keppa í einhverju,“ segir Williamson.

Í þættinum bauðst ungum fótboltastelpum tækifærið til að senda inn skilaboð og spurningar til Williamson.

„Hæ Leah. Ég heiti Scarlett og er ellefu ára gömul. Ég spila á vinstri kanti hjá U-13 ára liði Broomfield. Mig langaði að þakka þér fyrir frábært fótboltasumar,“ segir ein stelpan.

„Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að hætta að vera ósýnileg,“ bætir hún svo við. Það var nokkuð ljóst að Williamson var nokkuð hrærð yfir þessum skilaboðum, enda tengt því sem hún ræddi er varðar fyrirmyndir hér ofar.

Myndband af þessu má sjá hér að neðan.