Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham United eru sagðir hafa hótað eigendum London leikvangsins, sem West Ham spilar heimaleiki sína á, lögsókn lækki þeir ekki verðið á bjórnum sem er seldur á leikvanginum. Um daginn var sagt frá því að stuðningsmenn liðsins væru brjálaðir yfir alltof háu verði á bjórnum sem er seldur á leikvanginum.

Margur stuðningsmaðurinn rak upp stór augu þegar komið var á leikvanginn þar sem rúmur hálfur líter af bjór var verðlagður á 7.60 pund eða því sem jafngildir tæpum 1300 íslenskum krónum. Það er Twitter-reikningurinn Football Away Days sem vekur athygli á þróuninni í færslu á samfélagsmiðlum þar sem stuðningsmenn eru varaðir við. ,,Ef þú átt leið á leik hjá West Ham United á tímabilinu, varaðu þig. Þú gætir þurft að veðsetja húsið þitt fyrir nokkur glös af bjór."

Nú segir breski vefmiðilinn Daily Mail frá því að forráðamenn West Ham United íhugi að lögsækja eigendur London leikvangsins vegna þróunarinnar. Þeir eru tilbúnir til þess að fara fyrir dómstóla til að knýja fram verðbreytingu og vilja þar vísaa í ákvæði í veitingarsamningi þeirra við London leikvanginn.

Félagið vill verja stuðningsmenn sína fyrir því sem þeir kalla tækifærismennsku hjá eigendum London leikvangsins. Ákvæðið sem forráðamenn West Ham vísa til í samningi sínum við London leikvanginn segir að verðið á veitingum á leikvanginum eigi að vera meðaltal af sambærilegum leikvöngum í Lundúnum hjá félögum á borð við Arsenal, Tottenham og Chelsea.

Miðað við það ætti bjórinn að vera á 5.75 pund, 1.55 pundum ódýrari en raunin er núna.