Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp sigurmark Everton þegar liðið vann lífsnauðsynlegan 1-0 sigur á móti Wolves í baráttunni um sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð þegar liðin mættust í 37. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Goodison Park í dag.

Það var Richarlison sem skallaði hornspyrnu Gylfa Þórs í markið í upphafi seinni hálfleiks. Everton jafnaði Tottenham Hotspur, sem situr í sjötta sæti deildarinnar, að stigum með þessum sigri en Tottenham beið lægri hlut gegn Aston Villa í dag.

West Ham hefur líkt og Tottenham og Everton 59 stig en West Ham sækir WBA heim í 37. umferðinni í kvöld. Arsenal sem etur þessa stundina kappi við Crystal Palace og Leeds United eiga einnig möguleika á sæti í Evrópudeildinni í lokaumferðinni.

Þetta var sjötta stoðsending Gylfa Þórs í deildinni á yfirstandandi leiktíð en hann hefur einnig skorað sex mörk í deildinni á tímabilinu. Landsliðsfyrirliðinn spilaði fyrstu 85 mínúturnar í leiknum í dag sem sóknartengiliður.