Ekkert hafði spurst til Peng Shuai síðan í upphafi nóvembermánaðar eftir að hún sakaði fyrrverandi varaforseta landsins, Zhang Gaoli, um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi.

Á myndskeiðum sem hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum má sjá Peng á tennismótinu og á öðru myndbandi má sjá hana sitja að snæðingi með vinum sínum.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum sem og Sameinuðu þjóðirnar kröfðust þess að stjórnvöld í Kína veittu vissu fyrir því að tenniskonan Peng Shaui væri heil á húfi.

Ekkert hafði spurst til Peng Shuai síðan í upphafi nóvembermánaðar eftir að hún sakaði fyrrverandi varaforseta landsins, Zhang Gaoli, um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi.

Á miðvikudag birti ríkisfjölmiðillinn í Kína tölvupóst sem var sagður skrifaður af Peng. Í tölvupóstinum var því lýst yfir að ásakanirnar sem hefðu verið settar fram á hendur fyrrum varaforseta Kína hefðu verið rangar. Enn fremur var því haldið fram að Peng væri ekki týnd og að það væri í lagi með hana, hún væri heima hjá sér að hvílast.

Trúverðugleiki tölvupóstsins sem kínverski ríkismiðillinn birti hefur verið dreginn í efa.

Sameinuðu þjóðirnar kröfðust þess að rannsókn yrði sett á laggirnar um afdrif Peng Shuai og Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, lýsti yfir miklum áhyggjum af örlögum tenniskonunnar.

Hin 35 ára gamla Peng Shuai, var á sínum tíma ein besta tenniskona í heimi. Hún hefur unnið til verðlauna á Wimbeldon mótinu og franska opna meistarmótinu og var á sínum tíma efsta kona á heimslista.