Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu náði nýjum hæðum á nýútgefnum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins og situr nú í 14. sæti listans. Aldrei áður hefur kvennalandslið Íslands verið svo ofarlega á listanum.

Nýútgefinn listi tekur meðal annars mið af úrslitum á nýafstöðnu Evrópumóti í knattspyrnu sem fór fram í Englandi.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, kýs að horfa ekki of mikið á röðunina á styrkleikalistanum.,,Við spáum lítið í þennan heimslista en ég rak augun í þessa staðreynd,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið.

,,Auðvitað er þetta bara fínt í sjálfu sér þrátt fyrir að við horfum lítið í þetta. Þetta sýnir kannski bara að við séum á einhverri vegferð og góðri leið. Það er auðvitað góðs viti að við séum á leiðinni upp en ekki niður.“

Íslenska landsliðið færist upp um þrjú sæti milli lista en lægst hefur liðið verið í 22. sæti. Það er landslið Bandaríkjanna sem situr á toppi listans á undan Þjóðverjum sem eru í 2. sæti.Nýkrýndir Evrópumeistarar frá Englandi færast upp um fjögur sæti á listanum, fara úr áttunda sæti upp í það fjórða.