Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók í vikunni fyrir beiðni formanns handknattleiksdeildar Harðar, Vigdísar Pálu Halldórsdóttur um að bæjarfélagið myndi styrkja starf félagsins í ljósi tekjutaps sem deildin hefur orðið fyrir af völdum Covid-19.

Á dögunum tók bæjarráð Ísafjarðarbæjar fyrir sambærilega beiðni frá körfuknattleiksdeild Vestra og samþykkti að brúa bilið.

Bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að halda áfram að afla upplýsinga um tekjutap annarra félaga á tímabilinu og leggja fyrir bæjarráð

Í bréfi Harðar sem komst á dögunum upp í efstu deild karla í fyrsta sinn í sögu félagsins kemur fram að deildin sé í vandræðum með 14,35 milljóna skuld. Inn í þeirri upphæð sé bæði ógreidd leiga og tekjutap.

Þá hafi félagið orðið af 11,2 milljónum af þátttökugjöldum fyrir handknattleiksmót sem félagið er með á sinni könnu en þurfti að aflýsa vegna Covid-19 sem og orðið af mikilvægum styrkjum og auglýsingasamningum.

Í bréfinu er einnig minnst á að önnur félög séu að fá sambærilegan styrk og því sé þetta gott tækifæri fyrir sveitarfélagið að styðja við bakið á starfi deildarinnar.