Knattspyrnudeild FH og norska félagsins Sogndal hafa komist að samkomulagi um kaup síðarnefnda félagsins á Herði Inga Gunnarssyni, bakverði FH-inga.

Hörður Ingi, sem er 23 ára gamall, skrifar undir þriggja ára samning við Sogndal sem leikur í næstefstu deild í Noregi.

Þar mun hann leika undir stjórn fyrrverandi markahróksins Tore Andre Flo sem lék til að mynda með Chelsea, Rangers, Sunderland og Leeds United hér á árum áður.

Auk FH hefur Hörður Ingi spilað með ÍA, Víkingi Ólafsvík og HK hér á landi. Þá hefur hann einnig leikið með yngri landsliðum Íslands og á að baki einn A-landsleik.