Það eru svo sannarlega vandræði hjá karlaliði FH þessi misserin. Þetta stórlið í íslenskri knattspyrnu undanfarna tvo áratugi eða svo er í bullandi fallbaráttu í Bestu deildinni. Hörður Magnússon, goðsögn innan félagsins og sparkspekingur, hefur miklar áhyggjur af stöðu mála.

FH tapaði 4-1 fyrir ÍBV í gær. Liðið er í tíunda sæti deildarinnar með ellefu stig, stigi fyrir ofan Leikni Reykjavík, sem á tvo leiki til góða.

„Félagið mitt er á ókunnugum slóðum. Þeir eru að vakna upp við mjög vondan draum, martröð. Það er algjörlega ljóst að þetta verður bara 50/50 með FH,“ segir Hörður um möguleikann á því að FH falli niður í Lengjudeildina. Hann ræddi við hlaðvarpið Chess After Dark.

„Fyrir 2-3 vikum hélt ég að þeir myndu rétta úr kútnum. Þó ég vissi að þeir væru ekki að fara í efri hlutann. En það eru engin teikn á lofti um að það muni gerast. Þetta er að mörgu leyti óskiljanlegt.“

Ólafur Jóhannesson var látinn fara sem þjálfari FH í júní. Eiður Smári Guðjohnsen tók við. Gengið hefur ekkert batnað síðan, aðeins versnað. Hörður segir illa hafa verið staðið að brottrekstri Ólafs.

„Hvernig hann var látinn fara var fyrir neðan allar hellur. Það var bara strax eftir leik. Leyfið manninum að fara í viðtal, fara heim, sofa á þessu, tökum fund síðan daginn eftir. Þú gerir ekki svona við goðsögn. Mér fannst þetta óvirðing. Þetta er bara ein margra skrýtinna ákvarðana sem hafa verið teknar í Kaplakrika á undanförnum árum.“

Ólafur Jóhanneson, sem í dag stýrir Val.
©AntonBrink © Torg ehf / Anton Brink

Hörður segir að leikmenn FH eigi að fá harðari gagnrýni, ekki aðeins þjálfarar. „Þeir hafa svolítið sloppið við gagnrýni. Í FH eru sjö leikmenn sem hafa spilað með erlendum félagsliðum, verið í atvinnumennsku á einhverjum tímapunkti. Þeir eiga að vera einhvers konar leiðtogar en það heyrist ekki hósti eða stuna inni á vellinum. Það er engin gleði og þetta er allt svo leiðinlegt. Hafa menn ekki litið í spegil?“

„Þetta er höfuðlaus her og innkoma Eiðs Smára hafði áhrif fyrstu leikina en svo fóru menn í sama farið.“

Hörður bendir á að margir leikmenn félagsins séu að fá vel greitt fyrir sín störf. „Það er ekki eins og þeir séu að spila upp á einhverja bónusa. Þarna er hver silkihúfan á dúndurlaunum.“

Hörður segir Eið Smára enn geta sannað sig sem þjálfara. „Eiður Smári er með fótboltaheila upp á tíu og ég hafði mikla trú á honum, hann getur enn sýnt og sannað að hann eigi að vera þarna. En við skulum ekki gleyma því að Logi Ólafsson kom með honum síðast. Þeir voru mjög góðir saman og enda í öðru sæti.“

„Það er einn maður á lausu sem heitir Heimir Guðjónsson. Það er fullt af FH-ingum sem vilja sjá hann aftur í brúnni.“

„Ef það á að kenna íþróttafræði 101, þá tekurðu síðustu fjögur ár hjá FH og segir „svona á ekki að gera þetta.“ Það er ekki eitt eða tvennt, það er allt,“ segir Hörður Magnússon að lokum.