Stór hópur af íslendingum frá Reykjavík MMA hélt af stað til Englands skömmu fyrir helgi til að taka þátt í stóru bardagakvöldi sem kallast Cagedsteel. Reykjavík MMA tók nýverið í notkun mun stærri aðstöðu upp á Viðarhöfða og Íþróttavikan með Benna Bó kíkti í heimsókn í vikunni.

Bjarki Þór Pálsson útskýrði að félagsmenn hafi verið í framkvæmdum nánast frá því í apríl enda sé aðstaðan núna um þúsund fermetrar. „Við höfum alltaf haft markmið að fara út með keppendur og keppa. Við leggjum mikið upp úr því að láta blandaðar bardagalistir á Íslandi vaxa. Við höfum verið aktívir í því. Núna gerðum við samning um að koma með fleiri íslendinga gegn fleiri plássum á showinu. Það eru að fara þrjátíu manns og við erum með sjö íslendinga að keppa.“

Stemningin í hópnum sem er að fara út að keppa var góð og voru allir keppendur ákveðnir í að standa sig. Bjarki segir að hópurinn sé búinn að leggja mikið á sig. „Þetta eru strákar með mismunandi reynslu. Krummi er búinn að vera í bardagaíþróttum í 12 ár og sumir í tvö til þrjú ár. En stemningin er þannig að allir eru að æfa á fullu og bæta sig hratt. Við erum í því að hjálpast að sem lið og maður er að sjá miklar bætingar sem er gaman að sjá.“

Bjarki segir að þegar einstaklingar fari út í svona slagsmál þá myndist samkennd og úr verður liðsheild. „Við vitum allir hvað við erum að fara gera og styðjum hvorn annan í gegnum það.“

Hægt er að horfa á innslagið í heild sinni hér fyrir neðan.