Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Selfoss, hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskó sína á hilluna eftir 20 ára farsælan feril.

Þetta tilkynnir hún á samfélagsmiðlum sínum í kvöld. Þar segir hún eftirfarandi um ákvörðun sína og feril sinn:

„Eftir 20 ára feril í meistaraflokk hef ég tekið þá ákvörðun að taka af mér legghlífarnar og koma takkaskónum fyrir uppá hillu.
Ég var rétt að verða 16 ára þegar ég steig mín fyrstu skref í meistaraflokk með KR og spilaði m.a. minn fyrsta bikarúrslitaleik í byrjunarliði.

Við tók langur og farsæll ferill sem ég er ofboðslega stolt af. Atvinnumennska í Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum og Noregi, ásamt góðum árum í efstu deild á Íslandi.

Ég er virkilega stolt af því að hafa spilað yfir 100 landsleiki fyrir Ísland á 17 árum og að hafa verið hluti af fyrsta A landsliðshóp Íslands sem vann sér sæti og tók þátt í lokamóti stórmóts.

Ég er innilega þakklát fyrir síðustu tvö árin mín í boltanum á Selfossi eftir barnsburð. Árin þar kveiktu neistann í gömlu og náði ég að njóta þess að spila fótbolta, vinna bikarmeistaratitil, skora í úrslitaleiknum, vera kölluð aftur í landsliðið og enda ferilinn aftur í atvinnumennsku í Noregi með syni mínum en það er ekki sjáfsagður hlutur fyrir mæður að halda áfram knattspyrnuferli sínum eftir barnsburð.

Mig langar til að þakka öllum liðsfélögum í gegnum ferilinn, öllum þjálfurunum sem ég hef haft og ýttu mér áfram í að ná árangri, öllum fyrirmyndunum mínum og þá sérstaklega Olgu Færseth sem var eins og mamma mín á vellinum, KSÍ fyrir landsliðsárin og ómetanlega hjálp bæði innan og utanvallar, fyrir öll góðu árin í KR og að lokum Selfossi fyrir að hafa kveikt neistann eftir barnsburð.

Að lokum langar mig að þakka fjölskyldunni minni og vinum fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum ferilinn og síðast en ekki síst stuðningsmönnum allra þeirra liða sem ég hef spilað fyrir. Héðan í frá spila ég leikinn úr stúkunni og held áfram að njóta lífsins í sveitinni án legghlífa."

Skórnir á hilluna Eftir 20 ára feril í meistaraflokk hef ég tekið þá ákvörðun að taka af mér legghlífarnar og koma...

Posted by Holmfridur Magnusdottir on Þriðjudagur, 16. mars 2021