Hólmfríður Magnúsdóttir hefur verið kölluð inn í hóp íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fyrir leikinn gegn Svíþjóð í undankeppni EM 2022 sem fram fer í Gautaborg þriðjudaginn 27. október næstkomandi.

Hólmfríður sem leikur þessa stundina með norska úrvalsdeildarliðinu Avaldsnes kemur inn í hópinn í stað Dagnýjar Brynjarsdóttur, leikmanns Selfoss, en Dagný getur ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla.

Hólmfríður hefur leikið 112 landsleiki og skorað í þeim 37 mörk. Síðasti landsleikur hennar var í lok júlí árið 2017 þegar Ísland lék gegn Austurríki í lokakeppni EM.

Ísland og Svíþjóð eru jöfn að stigum á toppi riðilsins með 13 stig eftir fimm leiki. Svíar sitja á toppnum þar sem liðið hefur betri markatölu.