Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir lenti í 38. sæti af þeim fimmtíu keppendum sem náðu að ljúka keppni á Vetrarólympíuleikunum i svigi kvenna í nótt. Þrjátíu keppendur féllu úr leik í greininni og ljóst að brautin reyndist mörgum erfið.

Hólmfríður sem var að keppa í sinni annarri grein á Ólympíuleikunum kom í mark á 57,39 sekúndum í fyrri ferðinni og var í 43. sæti.

Henni tókst að bæta þann árangur í seinni ferðinni þegar hún kom í mark á 56,48 sem var 36. besti tíminn í seinni ferð dagsins.

Alls munaði 8,89 sekúndum á Hólmfríði og Petru Vlhova frá Slóvakíu sem tók gullverðlaunin að þessu sinni.

Hólmfríður á enn eftir að keppa í risasvigi á Ólympíuleikunum.