„Mér líður vel inni á vellinum þessa stundina og það er frábært að vera byrjaður að spila reglulega eftir krossbandsslitin. Endurhæfingin var löng og ströng og reyndi mikið á þolinmæðina. Það var erfitt að vera jafn verkjaður og ég var fyrstu mánuðina eftir aðgerðina vegna meiðslanna.

Ég þurfti mikinn andlegan styrk til þess að ganga í gegnum það. Það voru margir litlar sigrar á þessari löngu leið sem endurhæfingin er. Mig langar að þakka Róberti Magnússyni, sjúkraþjálfara, fyrir að hafa séð vel um þegar ég var að byggja mig upp," segir Hólmar Örn Eyjólfsson leikmaður búlgarska liðsins Levski Sofiu.

„Róbert sá til þess að ég er sterkari á löppunum en fyrir krossbandsslitin og hnéð er í góðu standi. Fyrstu leikina sem ég spilaði þá treysti ég ekki alveg hnénu og var varkár í hreyfingum mínum. Nú er ég hins vegar farinn að hreyfa mig á eðlilegan hátt og fara á fullu í návígin sem ég lendi i," segir varnarmaðurinn öflugi.

„Það er kunnuglegt stef í stöðu okkar í deildinni. Við eigum í höggi við Ludagorets í toppbaráttu deildarinnar. Þeir eru með besta liðið hérna og stærsta leikmannahópinn. Þeir eru með fjögurra stiga forskot á toppnum og við verðum að treysta á að þeir misstígi sig einhvers staðar á leiðinni.

Breiddin er þannig hjá Ludagorets að þeir geta rúllað liðinu án þess að finna neitt fyrir því. Þeir eru að spila í Evrópukeppnum á hverju ári og selja leikmenn fyrir háar upphæðir. Af þeim sökum geta þeir styrkt liðið umtalsvert á hverju tímabili," segir Hólmar sem var valinn leikmaður mánaðarins í búlgörsku efstu deildinni í september.

„Ég er mjög sáttur hérna í Sofíu og ég er með samning út þessa leiktíð og þá næstu. Það er ekkert fararsnið á mér og einbeitingin hjá mér þessa stundina er bara að koma mér í enn betra form. Þá langar mig mjög til þess að velta Ludagorets af stalli og verða búlgarskur meistari með Levski Sofíu. Ég er komin á þann aldur að ég þarf að huga vel að næstu skrefum á ferlinum," segir hann en Levski Sofía laut í lægra haldi fyrir Ludagorets í síðustu umferð deildarinnar.