Verstappen ræsti á annari rásröð í þriðja sæti í kappakstri gærkvöldsins. Hann átti hins vegar frábæra byrjun og hafði komið sér upp í fyrsta sæti fyrir fyrstu beygju keppninnar.

Í kjölfarið varð uppi mikill hamagangur fyrir aftan hann þar sem keyrt var á Valteri Bottas, ökumann Mercedes sem hóf keppnina á rásspól.

Verstappen byrjaði fljótlega að auka bil sitt í aðra ökumenn á brautinni og vann yfirburðasigur.

Sjöfaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton, náði aldrei að ógna Verstappen í kappakstri gærdagsins og endaði í 2. sæti. Sergio Perez, liðsfélagi Verstappen hjá Red Bull Racing endaði þriðji.

,,Veit ekki hvaðan þessi hraði kom"

,,Hraðinn á þeim í dag var ótrúlegur," sagði Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes um Red Bull Racing í gær. ,,Mér finnst ég hafa gert eins vel og ég gat í dag, það var ekkert sem ég gat gert til þess að skáka þeim.

Hamilton endaði 16 sekúndum á eftir Verstappen í kappakstri gærdagsins og hann viðurkennir að Mercedes geti átt í erfiðleikum í síðustu keppnum tímabilsins ef bíllinn hjá Red Bull heldur áfram að vera svona hraður.

Sir Lewis Hamilton
GettyImages

,,Það eru fjórar keppnir eftir og við verðum bara að halda áfram. Ég veit ekki hvaðan þessi hraði kom frá þeim í dag en þeir voru um það bil hálfri sekúndu hraðari en við á hring," sagði Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes eftir Mexikó kappaksturinn í gær.

Þurfa að negla smáatriðin

Max Verstappen segist vera langt frá því að vinna sinn fyrsta heimsmeistaratitil, margt geti breyst í næstu keppnum.

,,Þetta lítur vel út fyrir okkur en hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Ég hlakka til að keppa í Brasilíu um næstu helgi, ég á góðar minningar þaðan."

GettyImages

Verstappen tekur hverja keppni fyrir sig. ,,Við þurfum að reyna ná öllum smáatriðum réttum í hverri einustu keppni og það gerðum við í gær. Hlutirnir geta mjög fljótt til hins verra eða hins betra og það verður mjótt á mununum alveg til loka, þetta verður mjög spennandi," sagði Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing eftir keppni gærdagsins.