Holland og Kanada tryggðu sér í dag sæti i 16 liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu kvenna þegar önnur umferð í E-riðli keppninnar fór fram.

Holland lagði Kamerún að velli með þremur mörkum gegn einu. Vivianne Miedema skoraði tvö marka hollenska liðsins í leiknum og Dominique Bloodworth bætti þriðja markinu við. Gabrielle Aboudi Onguene minnkaði hins vegar muninn fyrir Kamerún.

Miedema náði merkum áfanga með mörkunum sínum tveimur en hún hefur nú skorað 60 landsliðsmörk og er þar af leiðandi markahæsti leikmaður í sögu hollenska liðsins.

Það er ansi athyglisvert í ljósi þess að hún er einungis 22 ára gömul og hefur því næg tækifæri til þess að bæta met sitt enn frekar.

Kanada hafði svo betur 2-0 í leik sínum við Nýja-Sjáland. Það voru Jessie Fleming og Nichelle Prince sem skoruðu mörk kanadíska liðsins í þeim leik.

Holland og Kanada eru með fullt hús stiga á toppi riðilsins og bítast um toppsætið þegar þau mætast í lokaumferðinni.

Kamerún og Nýja-Sjáland eru aftur á móti án stiga og kljást um það að forðast botnsætið þegar þau eigast við.

Nú hafa sex lið tryggt sér farseðilinn í 16 liða úrslitin en Frakkland og Þýskaland voru fyrstu liðin til þess að tryggja sér sæti þar og Ítalía og England fylgdu þeim þangað með sigrum í leikjum sínum í gær.

Vivianne Miedema er oðrin markahæsti leikmaður í sögu hollenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.
Fréttablaðið/Getty