„Það er ekki hægt að lengja golfvelli endalaust. Það eru færri hlutar leiksins sem skipta máli þessa dagana. Áður fyrr þurfti meira að hugsa út í leikskipulag en öll tölfræði sýnir að ef þér tekst að slá nógu langt og halda þér þokkalega í leik muntu hafa forskot á andstæðingana sem slá styttra,“ segir Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari í höggleik, fyrrverandi landsliðsþjálfari og PGA-kennari, aðspurður út í breytinguna sem hefur átt sér stað í högglengd kylfinga undanfarna áratugi.

Um síðustu helgi tókst lítt þekktum heimamanni að slá rúmlega 400 metra högg á Evrópumótaröðinni í Suður-Afríku og eru kylfingar nú til dags að gera lítið úr sögufrægum völlum með högglengd sinni. Fara þarf aftur til ársins 1997 þegar John Daly tókst fyrstum að slá yfir þrjú hundruð jarda að meðaltali með driver af teig í upphafshöggum. Það var fyrsta ár Tiger Woods á mótaröðinni og vakti Woods strax athygli fyrir högglengd sína sem var tæplega 300 jardar að meðaltali. Í dag eru 110 kylfingar á PGA mótaröðinni sem eru að slá 300 jarda eða lengra að meðaltali með driver af teig og er Bryson DeChambeau högglengstur með 337,8 jarda að meðaltali. Meðaltalið á mótaröðinni er rétt undir 300 jördum og er Tiger í 204. sæti yfir högglengstu kylfingana með driver með meðaltal upp á 290 jarda.

Það sama á við um LPGA-mótaröðina, sterkustu mótaröð heims í kvennaflokki. Þegar fyrst var haldið utan um tölfræði um högglengd kylfinga á LPGA-mótaröðinni voru högglengstu kylfingarnir að slá að meðaltali um 265 jarda í upphafshöggunum með driver. Bianca Pagdanganan er högglengsti kylfingurinn á LPGA-mótaröðinni þessa dagana með tæplega 290 jarda í upphafshöggunum. Faðir Pagdanganan hefur lýst því yfir að hún verði fyrsti kylfingurinn til að komast yfir þrjú hundruð jarda meðaltalið en lengsta upphafshöggið í sögu mótaraðarinnar er 349 jarda högg Lexi Thompson árið 2018.

„Þetta er í rauninni bara áframhald af því sem gerðist fyrir aldamót þegar Tiger Woods kom fyrst inn á mótaröðina. Tiger var að slá mun lengra en allir keppinautarnir á þeim tíma og fram að því þurftu kylfingar ekkert endilega að vera högglangir. Eftir að Tiger byrjaði að slá miklu lengra en aðrir fóru mótshaldarar að lengja vellina til að gera þá meira „Tiger proof“ ef svo má segja, svo að hann væri ekki að slá upp að flötinni á öllum holum. “

Eftir erfiða baráttu við meiðsli hefur Tiger tekist að vinna þrjú mót á tveimur árum, þar af einn risatitil, en hann er ekki lengur í sama sérflokki þegar kemur að högglengd á mótaröðinni.

„Tiger hafði rosaleg áhrif á þessa kynslóð sem kom í kjölfarið á honum og eru bestu kylfingar heimsins í dag. Þessir kylfingar sem eru flestir á bilinu 20-30 ára eru allir í hörkuformi og með allt aðra tæknilega þjálfun en þeir sem eru eldri. Sem dæmi var á mínum unglingsárum þegar ég var að æfa og keppa aldrei minnst á högglengd. Þjálfarar töluðu lítið sem ekkert um um að slá langt heldur einblíndu á að slá beint og ná upp stöðugleika. Í dag er fyrst og fremst lögð áhersla á högglengd og hitt lærist með tímanum hjá metnaðargjörnum kylfingum,“ segir Úlfar, sem er sjálfur golfkennari.

„Ef þú ætlar að ná langt, hvort sem það yrði í áhuga- eða atvinnumennsku, þá verðurðu að geta slegið langt. Það eu fá dæmi um velgengni til lengri tíma hjá höggstyttri kylfingum þessa dagana. Þeir bestu eru högglangir og vellirnir eru að lengjast til að auka erfiðleikastigið,“ segir Úlfar og tekur einn frægasta völl heims sem dæmi.

„Það er ekki hægt að lengja gamla völlinn á St. Andrews mikið lengur. Ég held að það hafi verið Gary Player sem sagði að stærstur hluti mótaraðarinnar myndi slá inn á úr upphafshögginu á annarri hverri holu ef veðrið er í lagi. Fyrir vikið verður völlurinn ekki sama áskorunin lengur. “

Það er sjaldgæft að kylfingar séu að móta eigin sveiflu þessa dagana líkt og Daly gerði á sínum tíma en þó eru dæmi um það.

„Það er sjaldgæfara en það eru enn dæmi um að kylfingar fari óhefðbundnari leiðir. Matthew Wolff er með mjög sérstaka sveiflu sem leggur áherslu á mjaðmahnykk. Hann er sérstaklega þjálfaður til að vera með mikinn kraft og er með högglengri mönnum mótaraðarinnar.“

Aðspurður hvort það gæti komið til þess að mótaraðirnar setji strangara regluverk þegar kæmi að boltum sagðist Úlfar ekki viss hvaða aðgerða væri hægt að grípa til.

„Það er erfitt að segja, golfið er ein af fáum íþróttum sem er ekki með sérstaka keppnisbolta. Þetta er viðkvæmt mál því framleiðendurnir eru ekkert endilega tilbúnir til þess.“

Vöðvafjallið Bryson DeChambeu hefur vakið athygli fyrir breytingar á líkama sínum sem hefur aukið högglengdina. Fréttablaðið/Getty