Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals var skiljnalega himinlifandi eftir að hafa landað fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins í karlaflokki í körfubolta í 39 ár í kvöld.

Hann vildi ekki gera upp á milli Íslandsmeistaratitlanna sinna en þetta var sá sjötti á níu árum og fyrsti með Val.

„Það er ekki hægt. Ég geri ekki upp á milli barnanna,“ sagði Finnur glaðbeittur að leikslokum.

Óhætt er að segja að varnarleikur Vals hafi skilið liðin að. Í fjórða leikhluta héldu Valsmenn vel aftur af andstæðingum sínum og eftir 9-1 kafla fóru gestirnir að reyna örvæntingarfull skot.

„Við höfum reitt okkur á varnarleikinn í allan vetur. Sóknarleikurinn hefur verið upp og ofan í þessu einvígi og Stólarnir voru góðir í því að ýta okkur úr því sem við viljum gera. Okkur tókst að aðlagast undir lok leiksins og treystum um leið á það sem við getum stjórnað, varnarleiknum.“

Þrátt fyrir að hafa lent tíu stigum undir í upphafi leiks hélt Finnur ró sinni.

„Það sást á fyrstu mínútunum ákveðið óöryggi og við lendum tíu stigum undir. Auðvitað fer um mann en þetta er langur leikur og við vorum búnir að tala um að örvænta ekki,“ sagði Finnur og hrósaði sínum mönnum.

„Sóknartölfræðin okkar í seríunni öskrar ekkert Íslandsmeistarar, menn sem hafa átt erfitt í einvíginu settu niður risaskot. Svo var Hjálmar frábær í kvöld.“

Finnur er á öðru tímabili sínu með Valsliðið og viðurkennir að hann hafi ekki búist við því að landa Íslandsmeistaratitlinum strax eftir að hafa farið yfir lækinn frá KR.

„Ég bjóst ekki við því að ná þessu svona fljótt. Fyrsta markmið var að koma okkur meðal efstu sex en vissum að það yrði erfitt. Það voru ótrúlega mörg lið sem ætluðu sér að verða Íslandsmeistarar í ár og þetta er erfiður þröskuldur að fara yfir eins og sést á liðum í deildinni sem hafa verið að eltast við fyrsta meistaratitilinn undanfarin ár.“