Umfang þess starfs sem er í kringum fótboltalið eykst ár frá ári. Einn þáttur utanumhalds er gagnagreining á leikjum liðanna og þeim leikmönnum sem félög ætla að fá til liðs við sig. Bjarki Már Ólafsson segir Ísland hafa dregist verulega aftur úr hvað þennan þátt varðar.

Bjarki Már Ólafsson hefur á tiltölulega stuttum ferli sínum sem fótboltaþjálfari og leikgreinandi hlotið viðamikla reynslu. Bjarki Már hefur meðal annars starfað sem yfirþjálfari yngri flokka Gróttu, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá því félagi, leikgreinandi hjá íslenska karla- og kvennalandsliðinu og nú síðast var hann í þjálfarateymi Heimis Hallgrímssonar hjá Al Arabi.

Bjarki Már vakti athygli á því á Twitter-síðu sinni á dögunum að hann hefði orðið var við umfjöllun um skort á sérhæfingu innan íslensks fótbolta í greiningum á leikfræði, leikmönnum og gögnum.

Bjarki Már benti á þá staðreynd að á Íslandi væru sárafáir einstaklingar sem sérhæfa sig og starfa á þessum sviðum fótboltageirans hér. Þetta séu á sama tíma veigamiklar stöður hjá flestum félögum erlendis.

Fólk með ólíkan bakgrunn

„Ég var nú bara í sumarfríinu mínu að pæla í þessum hlutum og þar sem ég hef verið svo heppinn á mínum stutta ferli í þjálfarabransanum að fá að taka að mér viðamikil verkefni með mjög færum þjálfurum og öðru fagfólki fannst mér að réttast væri að miðla af þeirri reynslu.

Ég ákvað því að hóa því fólki sem hefur áhuga á leikgreiningu, gagnagreiningu og þessum hluta fótboltans saman í einn umræðuhóp á Whatsapp. Það kom mér virkilega á óvart hversu margir hafa áhuga á þessu og einnig hversu ólíkan bakgrunn þeir hafa sem höfðu samband við mig,“ segir Bjarki Már um verkefnið sem hann er með í burðarliðnum.

„Planið er að setja saman fyrirlestraröð þar sem ég fæ sérfræðinga á þessu sviði til þess að halda erindi auk þess að vera með framsögu sjálfur um þennan vinkil á fótboltanum. Að mínu mati höfum við dregist mjög aftur úr hér heima hvað þetta varðar.

Skortur á því að þessum hluta fótboltans sé sinnt er að mínu viti stór þáttur í því að íslensk félagslið hafa dregist aftur úr í samanburði við þau evrópsku félagslið sem við viljum bera okkur saman við.

Það er gríðarlega mikið áhyggjuefni að Ísland hafi síðasta sumar misst sæti í Evrókeppnum félagsliða og hvað deildin okkar er orðin aftarlega á styrkleikalista UEFA,“ segir hann.

Vantar greiningarteymi hjá KSÍ

„Mér finnst hreyfingin í heild sinni hafa sofnað á verðinum hvað það varðar að fylgja eftir þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis hvað greiningarvinnu varðar.

Það er einkennilegt að hjá KSÍ starfi engin greiningardeild og miðstýringin á þeim gögnum sem verið er að vinna sé ekki betri en raun ber vitni. Þá finnst mér það tímaskekkja að engin félög, mér vitanlega allavega, séu með stöðugildi fyrir leikgreinanda eða einstakling sem sinnir gagnagreiningu.

Mér finnst miður að lítið af þeim fjármunum sem komu inn í íslenskt fótboltaumhverfi vegna þátttöku karlalandsliðsins á EM 2016 og HM 2018 hafi verið nýttir til að bæta þennan þátt nútímaknattspyrnuþróunar. Þessir fjármunir hefðu getað hjálpað okkur að efla faglegt starf félaganna enn frekar en raun ber vitni,“ segir Bjarki Már

„Mig langar að leggja mitt af mörkum til þess að koma umræðunni af stað hið minnsta og vonandi skilar það einhverjum árangri í því að við tökum skref í átt að því að bæta okkur í þessum hluta fótboltans.

Hvað mig sjálfan varðar þá hef ég hug á því að starfa á þessu sviði og stefnan er að einblína á störf þar sem ég hef heildarsýn yfir kaupstefnu, leikgreiningu, gagnagreiningu og faglegt starf hjá félagi með mikinn metnað.

Mér finnst líklegast að næsta starf sem ég tek að mér verði utan landsteinanna en maður veit aldrei í hvaða átt fótboltinn leiðir mann,“ segir þessi metnaðarfulli einstaklingur.