Forseti Atletico Madrid segist hafa hafnað tilboði frá Manchester City í miðvörðinn Jose Gimenez í sumar sem hefði gert hann að næst dýrasta varnarmanni sögunnar.

Enrique Cerezo greindi frá þessu í útvarpsþætti El Transistor á Spáni.

Enska félagið er þegar búið að kaupa Nathan Aké í sumar en Pep Guardiola vill ólmur bæta við öðrum miðverði til að þétta raðirnar eftir vonbrigði síðasta tímabils.

Gimenez sem er 25 ára hefur verið einn eftirsóttasti miðvörður Evrópu undanfarin ár og hefur verið á mála hjá Atletico í sjö ár.

Tilboð City hljómaði upp á 78 milljónir punda sem hefði þýtt að City ætti næst dýrasta varnarmann heims á eftir Harry Maguire.

Hefði Atletico samþykkt tilboð enska félagsins hefði Gimenez skotist fram úr Virgil van Dijk sem næst dýrasti varnarmaður heims.