Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings Reykjavíkur er hóflega bjartsýnn fyrir komandi leiki gegn Malmö í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu vikum. Fyrri leikurinn fer fram ytra á þriðjudag og sá síðari í Víkinni viku síðar.

„Miði er möguleiki. Klárlega er Malmö sigurstranglegri en við teljum okkur geta strítt þeim,“ sagði Arnar í samtali við Fréttablaðið í vikunni. „Við þurfum að undirbúa okkur vel og ná í hagstæð úrslit á útivelli svo draumurinn lifi enn þá þegar við mætum á Víkingsvöllinn. Það er smá munur á þessum völlum, það verður að segjast. Þetta er svaka vígi þarna hjá Malmö, flottur völlur. En að eiga séns þegar við komum í Víkina, á okkar teppi, þá getur allt gerst.“

Frá heimavelli Malmö.
Fréttablaðið/Getty Images

Hefur tekið samtalið við Milos

Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings, stýrir Malmö. Arnar hefur rætt við Milos undanfarna daga og kveðst spenntur fyrir því að fá hann heim. „Við erum búnir að vera í sambandi síðustu daga. Það er bara tilhlökkun, hann er búinn að gera frábæra hluti á sínum þjálfaraferli og að mínu mati rutt brautina fyrir, ég segi bara íslenska þjálfara, hvað varðar hvaða leið er hægt að fara með eljusemi og dugnaði. Hann er klárlega ein af mínum fyrirmyndum í því hvað er hægt að gera sem þjálfari á Íslandi.“

Víkingur sigraði á dögunum forkeppni sem haldin var í Víkinni þar sem leikið var upp á sæti í undankeppninni sem liðið tekur nú þátt í. Þar vann Víkingur 6-1 sigur gegn Levadia Tallin annars vegar og 1-0 sigur gegn Inter Escaldes hins vegar. Íslandsmeistararnir voru sigurstranglegri aðilinn í þessum leikjum. Fyrir leikina gegn Malmö er staðan hins vegar önnur. Arnar var spurður út í muninn á undirbúningi liðsins fyrir leikina gegn Svíunum annars vegar og svo gegn Eistunum og Andorramönnunum hins vegar.

„Það fer meiri fókus á varnarþáttinn og í að halda einbeitingu,“ sagði Arnar. „Þegar þú spilar á móti svona sterkum andstæðingum þá er það bara ein mistök og þú ert úr leik. En við teljum okkur hafa nægilega mörg vopn til að gera strítt þeim aðeins. Það eru alls konar smáatriði sem betri leikmenn hafa sem slakari leikmenn hafa ekki. Við þurfum meira að pæla í einstaklingum hjá þeim, þeir eru fleiri en hjá andorrska liðinu sem geta strítt okkur, þeir hafa fleiri vopn. En stutta svarið er varnarleikurinn.“

Milos Milojevic
GettyImages

Leikjaálag mikið

Það verður mikið leikjaálag á leikmönnum Víkings á næstunni. Auk þess að vera í Meistaradeildinni er liðið að berjast í efri hluta Bestu deildarinnar og er það komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

„Við erum sem betur fer með þokkalegan hóp. Það hefur gengið vel að rótera liðinu hingað til,“ sagði Arnar um leikjaálag framundan. „Við byrjuðum á því strax í maí og fengum smá pillu fyrir það. En ég held að það sé klárlega að hjálpa okkur núna þegar það eru margir leikmenn sem eru komnir með ansi margar mínútur undir beltið, sem þýðir það að þeir eru meira tilbúnir núna heldur en ef maður myndi henda þeim út í djúpu laugina með engar mínútur. Ég held að það sé að hjálpa liðinu núna og muni gera það á næstu vikum því það er mjög krefjandi að spila svona marga leiki á stuttum tíma. Svo bætirðu inn í ferðalögum og, ef ég má bæta við, mismunandi aðstæðum, gervigrasvellir, mismunandi grasvellir, allt þetta hefur áhrif. En ég tel okkur hafa hóp sem getur tekist á við þetta.“