Al­þjóða Ólympíu­nefndin segir Ólympíu­nefnd Asíu ekki hafa sig með í plönum þegar kom að því að veita Sádi-Arabíu réttinn á að halda Asísku vetrar­leikana árið 2029. Á­kvörðunin hefur valdið mikilli furðu enda Sádi-Arabía ekki þekkt fyrir að vera nein vetrarpara­dís. Stjórn­völd þar í landi ætla að eyða því sem nemur 500 milljörðum Banda­ríkja­dala til að byggja upp að­stöðu fyrir leikana. The Guar­dian greinir frá.

Sádi-Arabía er að miklu leiti bara eyði­mörk þar sem snjóar sjaldan, þá er ekki hefð fyrir vetrar­í­þróttum eða inn­viðum tengdum vetrar­í­þróttum í landinu. Þar af leiðandi þarf að mjög miklu leiti að byggja alla að­stöðu fyrir leikana alveg frá grunni.

Sjálf kemur Al­þjóða Ólympíu­nefndin af fjöllum, farið hafi verið fram hjá nefndinni þegar á­kvörðunin um að Sádi-Arabar yrðu gest­gjafar leikanna var tekin. Hún telur þessa á­kvörðun stangast á við þá stefnu sem sam­bandið hefur sett sér og aðildar­sam­böndum sínum um að nýta fyrir þá að­stöðu sem til er í hverju ríki fyrir sig og draga úr kostnaði við leikana þannig fleiri borgir og ríki gætu séð hag sinn í því að halda slíka leika.

Hug­myndir Sádi-Araba tengjast fyrir­hugaðri ofur­borg ríkisins, Neom, verk­efni sem er leitt á­fram af Mohammed bin Sal­man, krón­prinsi Sádi-Arabíu. Þeir 500 milljarðar Banda­ríkja­dala sem hins vegar eru ætlaðir í undir­búning fyrir leikana eiga að fara í að byggja fjallapara­dísina Troj­ena, heils­árs­á­fanga­stað fyrir vetrar­í­þróttir þar sem hægt verður að finna skíða­svæði, mann­gert fersk­vatns stöðu­vatn sem og náttúru frið­land.

Búist er við því að fram­kvæmdum við Troj­ena verði lokið árið 2029.