Sport

„Það er kominn meiri fiðringur“

Hörður Björgvin Magnússon segir að ekki sé hægt að kvarta undan aðstæðunum í ferðamannabænum Kabardinka. Hann segir að fiðringurinn sé að aukast fyrir fyrsta leik en hann lætur yfirvofandi félagsskipti til CSKA Moskvu ekki trufla það.

Það var létt yfir Herði á æfingu landsliðsins í dag. Fréttablaðið/Eyþór

Það er kominn meiri fiðringur, vitandi að það er flug til Moskvu á eftir og þegar maður sér leikvöllinn og stuðningsmennina syngjandi á götunum þá fer maður algjörlega í gírinn,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður íslenska landsliðsins, fyrir æfingu landsliðsins í Kabardinka í dag.

Strákarnir okkar tóku síðustu æfingu fyrir brottför í dag en hún fór fram fyrir luktum dyrum. Þeir halda síðan til Moskvu og lenda þar rétt fyrir kvöldmatarleytið.

„Það hefur gengið mjög vel hingað til, þetta hafa verið skemmtilegar æfingar hérna og það jákvæða er að enginn er búinn að meiðast ennþá. Það helst vonandi þannig út mótið. Það hefur allt verið frábært hingað til og við erum mjög sáttir með aðstæðurnar,“ sagði Hörður og bætti við:

„Það fer mjög vel um okkur hérna, sól, gott æfingarsvæði og gott hótel. Það er skemmtilegt að skoða hótelið, það er svona ekta-rússneskt að innan. Við erum mjög sáttir og ég á ekki von á öðru en að þið séuð það líka, það sem ég sá af bænum í gær var mjög flott.“ 

Hann fór líkt og aðrir leikmenn landsliðsins í hjólareiðatúr um Kabardinka í gær.

„Ég skellti mér á hjólið í gær, sá að þetta er greinilega mikill ferðamannabær en ég fann ekki þessa ísbúð sem strákarnir fóru í. Ég fann mér bara stað við ströndina og reyndi að upplifa rússneska menningu þar.“

Hörður Björgvin gæti verið að koma sér vel fyrir í Moskvu en viðræður standa yfir við CSKA Moskvu um kaup á honum frá Bristol City.

„Þetta hefur ekki truflað til þessa, það eru viðræður í gangi og ég er búinn að ganga frá mínu en það eru einhverjir pappírar eftir. Ég er bara að einblína á landsliðið og stórmótið sem er framundan,“ sagði Hörður sem sagðist ekki ætla að nýta tímann í Moskvu til að skoða íbúðir.

„Neinei, ég er nú ekkert kominn svo langt. Ég er bara að hugsa um hvernig ég geti gert hótelherbergið mitt hérna notalegra en ég fer að skoða þetta eftir HM,“ sagði Hörður hlæjandi.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fótbolti

Boateng til Barcelona

Sport

NFL-stjarna kíkti á Gullfoss

Handbolti

Fyrsta tap Kristjáns kom gegn Noregi

Auglýsing

Nýjast

„Ekki hægt að biðja um betri byrjun“

Elín Metta með tíu landsliðsmörk

Elín Metta á skotskónum á Spáni

Veðja aftur á varaliðsþjálfara Dortmund

Hilmar hafnaði í 20. sæti

Matthías færir sig um set í Noregi

Auglýsing