Alþjóða knattspyrnusambandið hefur gefið út tölfræði í tengslum við sjónvarpsáhorf á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer þessa dagana fram í Katar og segir sambandið að áhorfsmet hafi verið slegin víða um heim.
Slæm umræða fyrir mót um Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þá staðreynd að það sé haldið í Katar, ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin og fólk hvatt til sniðgöngu á mótinu, virðist því ekki hafa haft eins mikil áhrif og búist var við.
FIFA er í það minnsta himinlifandi með áhorfstölur til þessa en HM í Katar hefur boðið upp á flotta leiki og óvænt úrslit í riðlakeppninni þar sem stórþjóðir á borð við Þýskaland, Danmörk og Belgíu hafa fallið úr leik.
Í Bandaríkjunum er áhuginn á mótinu sérstaklega mikið. Bandaríkin eru sjálf komin í 16-liða úrslit mótsins og tæpar 20 milljónir manna eru sagðir hafa horft á leik liðsins gegn Englandi á FOX í riðlakeppninni.
Það þýðir að sá leikur slær áhorfsmet hvað knattspyrnuleik í karlaflokki varðar í Bandaríkjunum.
Þá er svipaða sögu að segja frá ríkjum á borð við Holland, Frakkland og Japan. Í Japan hefur áhorf á HM farið upp um 74% frá því í riðlakeppninni á HM í Rússlandi árið 2018.