Eftir fína spilamennsku framan af leiks fataðist íslenska liðinu flugið þegar líða tók á leikinn í 35-30 sigri Svía í kvöld.
Með því eru hverfandi líkur á því að Ísland komist í átta liða úrslitin á HM.
Í kvöld var það stórleikur sænska markmannsins Andreas Palicka skildi liðin að en Palicka tók mörg dauðafæri á mikilvægum stundum og hélt íslenska liðinu í sífelldum eltingarleik við forskot Svía.
Fjarvera lykilmanna hjálpar ekki til, en Aron Pálmarsson kom ekkert við sögu í dag og Ómar Ingi Magnússon var fljótlega tekinn af velli og þurfti á aðhlynningu að halda.
Íslenska liðið þarf að treysta á að Svíþjóð og Grænhöfðaeyjar vinni leikina gegn Ungverjalandi og Portúgal á sunnudag ásamt því að vinna Brasilíu til að eiga möguleika á öðru sæti riðilsins.

Íslenska liðið byrjaði leikinn í kvöld illa. Sóknarleikurinn stirður og markvarslan ekki til staðar fyrstu mínútur leiksins. Svíarnir voru að finna glufur á vörn Íslands og komust 4-1 yfir.
Eftir tíu mínútna leik kom Viktor Gísli Hallgrímsson inn í mark íslenska liðsins og sóknarleikurinn fór að ganga betur. Gísli Þorgeir bar sóknarleikinn á öxlum sér og Ísland náði forskotinu í fyrsta sinn á 21. mínútu leiksins.
Þegar mest var náði Ísland þriggja marka mun í 15-12 áður en Svíarnir tóku við sér á nýjan leik. Með 8-1 kafla náðu Svíar fjögurra marka forskoti og Ísland var komið í eltingaleik.
Fyrir hvert áhlaup íslenska liðsins kom Palicka með mikilvæga vörslu og hélt aftur af íslenska liðinu í Gautaborg.
Í seinni hálfleik voru Svíarnir sterkari. Langar sóknir sem skiluðu iðulega marki á meðan Palicka var að taka bolta á mikilvægum stundum.
Undir lok leiks tókst Svíum að bæta aðeins við forskotið en Kristján Örn Kristjánsson kom öflugur inn af bekknum og hélt Íslendingum inn í myndinni.
Kristján var ásamt Gísla Þorgeiri markahæstir með fimm mörk hvor.