Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann kom inn á sem varamaður í tveimur af fyrstu þremur leikjum deildarinnar, en var svo í byrjunarliði Norrköping í fyrsta skipti í deildarleik, þegar liðið mætti Östersund í fjórðu umferð deildarinnar. Þessi öflugi leikmaður þakkaði traustið sem Jens Gustafsson, þjálfari liðsins, ber augljóslega til hans með því að leggja upp tvö mörk í 4-2 sigri.

Sú frammistaða skilaði honum áframhaldi í byrjunarliðinu, í 1-1 jafntefli á móti Elfsborg í leik liðanna í vikunni. Spilamennska Ísaks Bergmanns í upphafi leiktíðarinnar varð til þess að hann hlaut mikið lof í umfjöllun Aftonbladet, þar sem segir að þrátt fyrir ungan aldur sé Ísak gríðarlega þroskaður leikmaður sem spili líkt og fullorðinn og þrautreyndur leikmaður.

Frábærlega staðið að hlutum hjá félaginu

„Það var vitað þegar ég samdi við Norrköping 15 ára gamall að það myndi taka mig tíma að vinna mér inn sæti í aðalliðinu. Á þeim tíma var hins vegar sett upp skýrt plan um þrepaskiptingu ferilsins á leið minni inn í aðalliðshópinn, og mér líkaði vel við þau áform. Ég myndi segja að það sé allt að ganga samkvæmt plani og það kemur mér ekki á óvart að vera kominn með jafn stórt hlutverki í liðinu og raun ber vitni. Ég er aftur á móti mjög sáttur við það hversu mikið traust ég fæ,“ segir Ísak Bergmann í samtali við Fréttablaðið um stöðu mála hjá sér.

„Ég er í grunninn miðjumaður, mér finnst það henta mér best að spila inni á miðjunni, og stefni að því að búa mér til feril í þeirri stöðu. Í þessum leikjum sem ég hef verið að spila á tímabilinu hef ég hins vegar verið að spila öðru hvoru megin við framherjann á kantinum í leikkerfinu 4-3-3, eða fyrir aftan framherjann. Svo leysti ég af í einum leik sem vinstri bakvörður þegar það komu upp meiðsli þar í miðjum leik. Það er gott að finna fyrir því að mér sé treyst fyrir mismunandi stöðum á vellinum,“ segir Ísak enn fremur um hlutverk sitt í liðinu eins og sakir standa.

„Við erum mjög vel skipaðir inni á miðsvæðinu með landsliðsmenn og mjög góða leikmenn. Þannig að ég átta mig alveg á því að það verður erfitt að koma mér að þar á þessum tímapunkti. Það er bara mjög dýrmætt fyrir mig að fá mínútur í svona sterku liði sem er að spila góðan fótbolta og gengur vel.

Þetta er rosalega flottur klúbbur og allt innan félagsins er í toppmálum. Þjálfarinn, Jens, gefur ungum leikmönnum mikinn tíma og er annt um að þeir séu að bæta sig, og er til í að gefa þeim stórt hlutverk. Svo fæ ég punkta frá aðstoðarþjálfaranum eftir alla leiki um hvað ég sé að gera vel og hvað megi bæta. Það hjálpar mér mjög mikið,“ segir hann um Norrköping.

Mamma sá um að innrétta íbúðina

„Mér líður líka mjög vel í borginni en það hjálpaði mikið til, þar sem ég var mjög ungur þegar ég kom hingað, að foreldrar Olivers [Stefánssonar] fóru með honum út. Mamma mín og mamma hans eru systur og við bjuggum í sama húsi, þannig að þau sáu vel um mig fyrsta árið.

Nú er verið að klippa á þann streng og við erum að flytja hvor í sína íbúðina. Ég flutti þar inn fyrr í sumar og mamma kom út til þess að hjálpa mér að koma mér fyrir þar og gera íbúðina huggulega,“ segir unglingalandsliðsmaðurinn.

„Fjölskyldan er mjög stolt af mér og ánægð hvernig gengur en út af ástandinu, og aðstæðum hjá þeim, geta þau ekki heimsótt mig jafn mikið og mætt á jafn marga leiki hjá mér og þau myndu vilja. Það kemur bara að því að þau geta kíkt á mig þegar hlutirnir eru komnir í betra horf og ég hlakka til þess.

Stefnan hjá mér hjá Norrköping núna er bara að auka hlutverk mitt jafnt og þétt og reyna að hjálpa liðinu eins vel og ég get. Það er mjög gaman að hafa getað lagt eitthvað af mörkum í síðustu leikjum og vonandi heldur það bara áfram þannig,“ segir Skagamaðurinn um framhaldið.

Ísak Bergmann með föður sínum.