Bandarísku kylfingarnir Pat Perez og Patrick Reed segja að PGA-mótaröðin geti kennt sjálfri sér um það að missa leikmenn í LIV-mótaröðina í Sádi-Arabíu. Sjálfir skiptu þeir yfir.

Margir af þekktustu kylfingum heims hafa undanfarnar vikur tilkynnt að þeir ætli að skipta um mótaröð og gengið til liðs við hina nýju LIV-mótaröð sem er fjármögnuð af Sádi-Aröbum. Hefur það vakið hörð viðbrögð og hafa Sergio Garcia, Martin Kaymer og Louis Oosthuizen til að mynda fengið sekt og bann frá Evrópumótaröðinni fyrir að taka þátt í LIV.

„(Jay) Monahan (forstöðumaður PGA) drap þetta niður í fæðingu. Hann vildi ekki hlusta eða taka fund,“ sagði Perez.

„Þau hlusta ekki á leikmenn. Þau segja að þau vinna fyrir okkur, fyrir leikmenn, en það er þveröfugt. Það er eins og við vinnum fyrir þau og við ráðum engu.“

Perez hélt áfram. „Við ættum að mega gera það sem við viljum því við erum á eigin vegum. Þessi hópur (LIV) hefur gert mér kleift að spila golf og vera með aðra dagskrá.“

Fyrr í þessum mánuði bannaði PGA-mótaröðin þá leikmenn sem ákváðu að ganga til liðs við LIV-mótarröðina.

Reed var spurður út í það hvort PGA hefði getað gert eitthvað til að halda þeim. „Hlustið á leikmenn, einu sinni,“ var hans svar.

Sádarnir borga mun betra verðlaunafé en aðrar mótaraðir. LIV-mótaröðin hefur, sem fyrr segir, verið mikið gagnrýnd vegna mannréttindamála í Sádi-Arabíu.