„Það ein­faldar að hafa gaman. Vin­kona mín, Olga Ingólfs­dóttir sem var að­stoða mig í þessu hlaupi, sagði að ég mætti ekki lengur vera að öskra og garga allan tímann því það væri að eyða of mikilli orku,“ segir Mari Jaersk sem sigraði í Bak­garði Náttúru­hlaupa um helgina.

Alls hljóp Mari 167 kíló­metra og 500 metrum betur á 25 klukku­stundum en í hlaupinu er hlaupinn er 6,7 kíló­metra hringur og ræst á klukku­tíma fresti. Hver hlaupari fær því klukku­tíma til að hlaupa hringinn og sá vinnur sem stendur síðastur eftir með lög­legan hring.

Mari hefur komið eins og storm­sveipur inn í ís­lenskt hlaupa­líf en að­eins eru um tvö og hálft ár síðan hún byrjaði að keppa. Og nánast alveg sama hvar hún hleypur þá vekur hún at­hygli fyrir að vera brosandi – jafn­vel þótt hún sé búin með fjöl­marga kíló­metra. Hún fór að­eins of geyst og meiddist og þurfti að hægja á í rúmt hálft ár. Þá tók hún fram göngu­skíði og varð fyrsta ís­lenska konan í mark í Fossa­vatns­göngunni í ár. Það nýjasta var svo að hún skráði sig í þrí­þrautar­lið.

Mynd/Aðsend

„Taktíkin var ekki alveg plönuð fyrir þetta hlaup. Við skoðuðum hvað þær bestu voru að gera úti í heimi og þær voru að klára hringina á um 50 mínútum. Ég rúllaði á því. Mig langaði alveg að fara hraðar. En til að klára þá gerði ég þetta eins og mig langaði og var sátt við það. Fylgdi því eftir sem ég var búin að á­kveða og var frekar að fylgja hægara fólki en því sem fór hraðar.“

Bak­garðurinn var svo­kölluð silfur­keppni og fá þau sex sem hlupu lengst sæti í lands­liði Ís­lands í Bak­garðs­hlaupum. Stefnt er að því að halda aðra Bak­garð­s­keppni í vor og verður hún einnig leið fyrir á­huga­sama til að reyna að komast í lands­liðið.

Alls geta 15 hlauparar skipað lands­lið Ís­lands og keppt í lands­liða­keppni Bak­garðs­hlaupa sem fer fram í októ­ber á næsta ári. Sú keppni mun fara fram í gegnum netið þar sem löndin keppa sín á milli. Sigur­vegari hvers lands getur unnið sér inn gull­miða í aðal­keppnina sem fram fer í Tennes­see í Banda­ríkjunum.

Mari segir að hún hefði alveg getað haldið á­fram nokkra hringi í við­bót en henni var fagnað af vinum og öðrum hlaupurum á síðasta hring. Hún fékk far til vina­fólks síns þar sem hún lagði sig í þrjá tíma og gekk um 2.000 skref, sem var tölu­vert minna en daginn áður. Í gær var hún svo komin aftur í hlaupa­skóna jafn­vel þó lægð væri yfir landinu.

„Ég fer ekki í ræktina, mér finnst það leiðin­legt. Mér er alveg sama um veðrið. Ég get ekki beðið eftir að fara út að hlaupa. Ég skoða ekkert veður­spána. Mér finnst fyndið hvað margir voru að pæla í veður­spánni fyrir hlaupið en því verra veður því betra fyrir mig. Ís­lendingar eru mjög upp­teknir af veðrinu,“ segir hún og hlær.

Mynd/Aðsend