Tilkynnt hefur verið hverjar muni skipa byrjunarlið íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í leik liðsins gegn Svíþjóð í undankeppni EM 2022 í kvöld.

Dagný Brynjarsdóttir er meidd og getur ekki spilað í þessum leik og Hlín Eiríksdóttir fyllir skarð hennar. Að öðru leyti er byrjunarlið Íslands eins og þegar liðið gerði jafntefli á móti Svíum í fyrri leik liðanna í undankeppninni á Laugardalsvellinum í lok september.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, bætir landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur með því að spila sinn 134. landsleik.

Íslenska liðið verður þannig skipað: Mark: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. Miðja: Sara Björk Gunnarsdóttir (f), Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir. Sókn: Sveindís Jane Jónsdóttir,, Elín Metta Jensen, Hlín Eiríksdóttir.

Karólína Lea færir sig niður á miðjuna þar sem hún spilar við hlið Söru Bjarkar og Alexöndru. Hlín tekur hins vegar stöðu Karólínu og leikur við hlið Elínar Mettu ásamt Sveindísi Jane.

Leikurinn sem fer fram á Gamla Ullevi í Gautaborg hefst klukkan 17.30. Fyrir þennan leik er sænska liðið á toppi riðilsins með 16 stig eftir sex leiki en Ísland hefur 13 stig eftir fimm leiki í öðru sæti.