Haraldur Ingólfsson (Halli) ætlar að hlaupa 310 kílómetra í apríl og gefa velunnurum tækifæri til að heita á hann í þeim tilgangi að styrkja rekstur Þórs/KA og Hamranna í knattspyrnu kvenna.

Verkefnið hefur fengið heitið „Halli hleypur apríl“ enda hefst það formlega miðvikudaginn 1. apríl og er markmiðið að ná að ljúka því í aprílmánuði. Upphaf þessa verkefnis má rekja til þess að leikmenn liðanna buðu sokka til sölu í febrúar og mars í fjáröflunarskyni og ákvað Halli að hlaupa einn kílómetra fyrir hvert selt par. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar seldu 310 pör. Það liggur því fyrir að hann þarf að hlaupa rúmlega 10 kílómetra að meðaltali á dag allan mánuðinn.

Halli hefur ekki verið í sínu besta formi undanfarið og vaknaði upp við vondan draum um miðjan mars þegar í ljós kom hve mörg sokkapör seldust. Hann tók því til við æfingar og hefur hlaupið nær daglega á Þórsvellinum síðari hluta mars. Hann hefur upplýst um framgang æfinga á sérstakri Facebook-síðu, „Hlauptu, Halli, hlauptu“, ásamt dagbókarskrifum á haralduringolfsson.wordpress.com. Hann hefur einnig sett inn efni á sína eigin Facebook-síðu og á Instagram (halli_ingolfs).

Markmiðið er að safna framlögum frá fólki og fyrirtækjum til að styrkja rekstur knattspyrnuliða kvenna á Akureyri, Þórs/KA og Hamranna. Velunnarar hafa að sjálfsögðu algjörlega frjálsar hendur um upphæðir. Til dæmis er hægt að ákveða tiltekna upphæð fyrir hvern kílómetra sem Halli hleypur, óháð því hvort hann klárar 310 kílómetra eða ekki.

Nokkrar leiðir eru í boði til að styrkja verkefnið:

  1. Leggja beint inn á hans eigin reikning – 0566-26-2777, kt. 2806632639. Skil á því fé sem kemur inn á reikning hans verða gerð undir eftirliti framkvæmdastjóra Þórs. 
  2. Mögulegt er að skrá áheit á sérstakri síðu og fá síðan kröfu í heimabanka með gjalddaga 1. maí.
  3. Stofnuð hefur verið fjársöfnunarsíða á Sportfunder þar sem hægt verður að skrá sig og greiða með kreditkorti, en smá hluti af upphæðinni rennur í kostnað til fyrirtækisins sem rekur viðkomandi vef.
  4. Leggja má beint inn á reikning Styrktarfélags Þórs/KA: 0566-26-6004, kt. 6409091020. Setjið til dæmis „hlaup“ eða „Halli“ í skýringu.
  5. Við lok verkefnisins verður hugsanlega eitthvað húllumhæ, auðvitað háð stöðu og lengd samkomubanns. Við það tækifæri verður vonandi mögulegt að skreppa í Hamar og renna korti í posa. Sjáum til hvernig málin þróast. 

Upplýsingar um verkefnið eru veittar í haralduringolfsson@gmail.com eða síma 824 2778.